Skammstafanir

1. Mannanöfn
(í samb. við þau).

m. = maður (eiginm.) 

k. = kona (eigink.)

Stytting á nöfn, þar sem það á við í samsetningu.

2. Staða.
3. Hreppa- og héraðsskammstafanir.
4. Ýmsar skammstafanir (flestar í samsetningum).

JÓN RÍKI Í ÁSI í Kelduhverfi, og systkini hans.

Það hefur verið allt ókunnugt um framætt Jóns ríka í Ási og er enn. Jón Sigfússon telur hann í blöðum sínum son Jóns Ketilssonar á Brimnesi í Seyðisfirði og bróður sr. Einars á Ási og sr. Ketils á Húsavík. Það getur að vísu vel staðizt tímans vegna, en er þó ólíklegt. Afkomendur Sigríðar, systur Jóns, konu Sigurðar Indriðasonar á Ytra-Nýpi og Stefáns í Stórureiðuvík, bróður hans, hafa verið að vitna til þess, að þau hefðu verið systkin Jóns ríka í Ási, en ekki talið sig til ættar við sr. Einar á Ási, þó þótti mönnum ætíð mikils vert að geta rakið ætt sína til presta eða annarra embættismanna. Að minnsta kosti lá nær fyrir afkomendur Stefáns að vitna til þess, að hann hefði verið bróðir sr. Einars, sem þá var einmitt prestur í Ási, þegar Stefán kom austur, og síðast prófastur, heldur en vitna til þess að hann hefði verið bróðir Jóns í Ási, ef Jón og sr. Einar hefðu verið bræður. En það sem tekur af öll tvímæli um þetta er bréf sem séra Jón Þorsteinsson, sonarsonur Jóns í Ási, ritar Jóni yfirdómara Péturssyni frá Hólmum 14. janúar 1859. Þar segir hann æviágrip afa síns. Það ágrip byrjar svo: „Jón sálugi afi minn ætla ég að sé fæddur og uppalinn á Vakursstöðum í Vopnafirði, þar bjó faðir hans og veit ég ekkert um hann, nema að hann átti nokkur börn. Fór Stefán sonur hans að Karlsskála í Reyðarfirði, kvæntist, átti börn og er ætt frá honum komin hér í fjörðum. Líka dreifðist ætt Jóns langafa míns norður á Hólsfjöll og eru þaðan margir afkomarar og allt fólk við gildlegri mun“. Ef Jón í Ási hefði verið bróðir sr. Ketils í Húsavík, sem þar var prestur 1728—1769 og dó 1778, 2 árum áður en sr. Jón fæðist, þá má telja óhugsandi, að sr. Jón hefði ekki heyrt það, þar sem séra Ketill hefði þá verið afabróðir hans og getið þess.

Nú sagði Agnes Einarsdóttir frá Rjúpnafelli Jónssonar Einarssonar prests á Skinnastað Jónssonar, að Jón í Ási og Sigríður á Ytra-Nýpi, móðir Jóns Sigurðssonar á Vakursstöðum, afa síns, hefðu verið systkin, og hefði Jón faðir þeirra búið á Egilsstöðum (minnti hana helzt) í Vopnafirði, flosnaði þar upp í hallæri og fellt skepnur sínar, dáið síðan og börnin farið á vergang, en þau hefðu komið sér vel og reynzt efnileg og dugleg og mannast vel. Agnes var minnug vel og talsvert fróð um ættir í Vopnafirði. Ekki vissi hún um fleiri systkini Jóns en Sigríði. Líklega er nú einhver fótur fyrir þessari sögu, hvernig sem á að heimfæra hana eða hvernig sem hún kann að hafa myndast, ef lítið væri hæft í. Gæti hafa átt við eldri forfeður hennar.

En ekki virðist áhorfsmál að álíta réttari frásögn séra Jóns, og það því fremur, sem hann segir enn framar um afa sinn: „Jón sálugi afi minn gaf sig lítið að vinnu allt að þrítugs aldri, nema stórgöngum, þegar svo bar undir, en lagði sig allan eftir bókum og lögum, því hann var gáfaður og skynugur mjög.“ — Kemur þetta illa heim við, að hann hafi lent á vergangi. Það sýnist miklu fremur benda á, að hann hafi verið í föðurgarði og getað hlíft sér við vinnu eftir því sem hann vildi, þó að hugsanlegt sé að hann hefði lent til einhverra góðra manna, sem hefðu fundið mikið mannsefni í honum og lofað honum að njóta frjálsræðis til bókalesturs.

Líta má á skyldleika, er menn hafa miðað við Jón í Ási. Jón Sigfússon getur þess, að Stefán Einarsson frá Syðri-Vík Ólafssonar (12026) hafi verið sagður þrímenningur við séra Jón gamla á Hólmum Þorsteinssonar Jónssonar í Ási og eins við Kristínu gömlu á Ljótsstöðum (12185) í föðurætt Stefáns, en í móðurætt við Sigurð í Möðrudal (3787). Þetta síðasta er rétt. En skyldleikinn við Kristínu er þannig, að hún var að 2. eða 3. við Stefán, — Einar faðir hans og Kristín systrabörn. En séra Jón og Stefán geta ekki hafa verið þrímenningar. En eflaust hafa þeir verið nálægt því. Einar faðir Stefáns og sr. Jón hafa líklega verið þrímenningar. Jón í Ási hefur líklega verið bróðir konu Jóns Ingimundarsonar (12001) móðurföður Einars. Jón Sigfússon hefur þann skyldleika víst eftir Stefáni sjálfum og vel gat það skolast í Stefáni, að hann og séra Jón hefðu ekki verið þrímenningar, heldur hefði séra Jón verið að 3. og 4. við hann. Slíkt er algengt misminni hjá þeim, sem ekki eru vel minnugir eða fróðir um ætt sína.

Jón Sigfússon segir á öðrum stað, að Jón á Grímsstöðum hafi verið sömu ættar sem Jón í Ási. Þessi Jón á Grímsstöðum hefur eflaust verið Jón Sigurðsson yngri á Grímsstöðum (8138), sem var samtíða Jóni Sigfússyni, sonur Sigurðar Jónssonar á Grímsstöðum og Guðrúnar Jónsdóttur bónda á Grímsstöðum Jónssonar á Vakursstöðum Ingimundarsonar. Ef kona Jóns Ingimundarsonar hefði verið systir Jóns í Ási, þá hefði séra Jón á Hólmum og Jón Sigurðsson á Grímsstöðum verið þrímenningar.

Jón Sigfússon hefur það ennfremur eftir Jóni á Sómastöðum Þorsteinssyni, að Sveinn á Kjólsstöðum og Einarsstöðum (12002 og 12115) hafi verið einn af „þessu frændfólki“. Sveinn var hálfbróðir Guðrúnar konu Sigurðar á Grímsstöðum, sammæðra, en ekki sonur Jóns Jónssonar Ingimundarsonar. Þess vegna verður ekki rakinn skyldleiki hans við Jón í Ási gegnum konu Jóns Ingimundarsonar. En Guðrún kona Jóns, sonar Jóns Ingimundarsonar, móðir Sveins, gat verið náskyld Jóni í Ási. En annars gat það vel ruglast, þar sem Sveinn ólst upp hjá Jóni Jónssyni Ingimundarsonar og Guðrúnu móður sinni, og bjó fyrst á Grímsstöðum móti stjúpa sínum, að menn hefðu, þegar frá leið, gert hann að syni Jóns þótt hann væri aðeins stjúpsonur hans, einkum þar sem hann var líka Jónsson. Það verður því ekki byggt á þessu, enda er frásögn Jóns á Sómastöðum ruglingsleg, eftir því sem Jón Sigfússon ritar. Hann segir: „Hélt Jón á Sómastöðum, að Sveinn væri bróðir fyrstu konu Jóns í Ási, heldur en sonur hans, enn einn af þessu frændfólki.“ Bróðir fyrstu konu Jóns, Þuríðar Guttormsdóttur frá Hjarðarhaga, gat hann ekki verið og sonur hans varla heldur, þar sem Jón er þá kominn norður að Reykjum í Grenjaðarstaðasókn þegar Sveinn fæddist um 1760. En það telur Jón á Sómastöðum víst, að Sveinn hafi verið af þessari ætt Jóns í Ási („einn af þessu frændfólki“). Og Vigdís, föðurmóðir Jóns á Sómastöðum, var dóttir Jóns í Ási, svo að hann hefði átt að hafa heyrt um þessa ætt talað, þótt hann myndi ekki vel.

Nú segir séra Jón í bréfi sínu. „Líka dreifðist ætt Jóns langafa míns (þ. e. föður Jóns í Ási) norður á Hólsfjöll, og eru þaðan margir afkomarar og allt fólk við gildlegri mun“. Það er líka fjöldi manns kominn af Jóni syni Jóns Ingimundarsonar og Guðrúnar.

Jón í Ási hefur verið fæddur um 1705 eftir sögn síra Jóns í bréfi hans. Segir hann að séra Jón hafi sjálfur sagt sig 94 ára árið sem hann dó, 1799, en í kirkjubók 1798 er hann talinn 91 árs, og ætti eftir því að hafa verið fæddur 1707. Jón er því fæddur um 1705—1707. Stefán bróðir hans er fæddur um 1711, eftir því sem honum er talinn aldur síðar eystra. En Sigríður kona Sigurðar Indriðasonar á Ytra-Nýpi hefur verið talsvert eldri, því að Jón sonur hennar er fæddur um 1721.

Ef Jón faðir þeirra hefur búið á Vakursstöðum, eins og séra Jón fullyrðir, þá ætti hann að hafa búið þar eftir 1703 og fram eftir öldinni og átt „nokkur börn“, eftir sögn séra Jóns. Á Vakursstöðum bjó 1703 ekkjan Vilborg Bjarnadóttir (36 ára) með börn sín, Bjarna (15 ára) og Margréti (10 ára) Bjarnabörn. Vinnumaður er Þorgrímur Hallgrímsson (62 ára) og Kristín Valdadóttir niðursetningur (16 ára). Fleira fólk er þar ekki. Bjarni Halldórsson hefur heitið maður Vilborgar, býr hann á Vakursstöðum 1681. Þetta fólk kemur auðsjáanlega ekki við ætt Jóns í Ási, enda ekkert kunnugt um það. Hefur það bú líklega leyst upp litlu síðar. En nú eru ekki kunnir ábúendur á Vakursstöðum frá 1703—1723. En 1723 býr sá bóndi á Vakursstöðum er Jón heitir Árnason. Þar er og Jón Jónsson nýkominn frá Skógum, eftir verzlunarbók Vopnafjarðar. Hann hefur víst verið þar til 1730, en þá er hann kominn í Haugsstaði og mun vera faðir Guðrúnar, sem átti Jón son Jóns Ingimundarsonar og varð áður móðir Sveins, sem bjó á Kjólsstöðum og Einarsstöðum. Aftur er Jón Árnason áfram á Vakursstöðum 1730, en ekki býr hann þar 1734, er líklega dáinn þá; að minnsta kosti býr enginn Jón Árnason þá í Vopnafirði. En Þorgrímur Jónsson býr þá einn á Vakursstöðum og mun vera sonur Jóns Árnasonar. Þorgrímur er þar einnig 1723. Það eru því miklar líkur til, að Jón þessi Árnason sé faðir Jóns í Ási og systkina hans.

Það má nú telja víst, að Jón þessi Árnason sé sá Jón Árnason, sem býr á Skjaldþingsstöðum 1703 43 ára. Kona hans hét Guðrún Jónsdóttir (43 ára). Börn þeirra, sem hjá þeim eru, heita: Guðrún (14 ára), önnur Guðrún (11 ára) og Jón (10 ára). Þá býr í Norðurskálanesi Gunnar Árnason 44 ára. Kona hans Þórunn Magnúsdóttir 43 ára, þeirra son Árni 2 ára. Þar er „í fóstri Þorgrímur Jónsson, 15 ára“. Þar er ennfremur Ólöf Jónsdóttir, „bróðurdóttir bónda“ 1. Munu þau vera systkin og börn Jóns Árnasonar á Skjaldþingsstöðum, og hann þá bróðir Gunnars. Faðir þeirra hefur verið Árni Gunnarsson, er bjó í Austur-Skálanesi 1676 og 1681.

Nú má telja líklegt, að Jón Árnason á Skjaldþingsstöðum hafi komizt að Vakursstöðum skömmu eftir 1703 og búið þar síðan. Þar sem nú kona Jóns er orðin 43 ára, er hæpið að Jón í Ási geti verið sonur hennar, ef hann er ekki fæddur fyrr en 1707 og Stefán, sem er fæddur um 1711, getur ekki verið það. Það eru því öll líkindi til, að Jón Árnason hafi misst konu sína Guðrúnu rétt eftir 1703 og Jón og Stefán ekki verið synir hennar. Þá vantar enn Sigríði systur Jóns í Ási. Hún getur ekki hafa verið fædd 1703 eða síðar, því að þá hefði hún ekki verið nema 18 ára, þegar hún fæddi Jón son sinn Sigurðsson, er síðar bjó á Vakursstöðum, en það er mjög ólíklegt. Í manntalinu 1703 finnst engin Sigríður Jónsdóttir, er hér gæti komið til greina, nema Sigríður Jónsdóttir, sem er vinnukona í Syðri-Vík, 21 árs. Er það næsti bær við Skjaldþingsstaði. Og þar sem Sigríður, sem varð kona Sigurðar Indriðasonar, ætti að finnast í manntalinu 1703 einmitt í Vopnafirði, og um aðra Sigríði er þar ekki að ræða, þá mætti álykta, að það væri hún. Væri hún þá elzta barn Jóns Árnasonar. Ef Guðný, kona Jóns Ingimundarsonar, hefði verið ein systir Jóns í Ási, sem óneitanlega sýnist ganga nærri fullri vissu vegna skyldleikans við Torfastaðafólk og Grímsstaðafólk, þá yrði hún að vera fædd eftir 1703 eða það ár og gat hún vel verið dóttir Guðrúnar konu Jóns. En verið gæti, að Agnes Einarsdóttir hefði munað nafnið skakkt og kona Jóns Ingimundarsonar hefði verið Guðrún yngri, dóttir Jóns Árnasonar. Hún var einmitt aðeins 1 ári eldri en Jón. Hefðu þau þá þegar kynnst meðan Jón var í Syðrivíkurhjáleigu en Guðrún á Skjaldþingsstöðum 10 og 11 ára gömul. Jón Ingimundarson var nú austan Hofsár lengi, á Eyvindarstöðum 1722, á Vindfelli 1729, en á Búastöðum er hann 1730. Það er næsti bær við Vakursstaði. Var þá eðlilegt að kynni þeirra endurnýjuðust og þá hefði leitt til giftingar. Dóttir fæðist Jóni og konu hans um 1732 og er látin heita Guðrún, væri það þá móðurnafn hennar, nafn konu Jóns Árnasonar, sem var 1703. En í Syðrivíkurhjáleigu bjuggu þau 1734 og 1738, því að það ár fæðist Arnþrúður dóttir þeirra, sem er yngst af börnum þeirra, sem kunnugt er um. — Þorgrímur hefur fengið Vakursstaði eftir föður sinn, en Jón hefur ekki komist að Vakursstöðum fyrr en eftir 1738, hefur líklega komist þangað við dauða Þorgríms, því að ekki hafa þeir feðgar átt Vakursstaði. Marteinn Björnsson frá Burstarfelli átti þá 1762. Þá er Jón Sigurðsson frá Nýpi kominn þangað, líklega nýkominn, ekkjumaður, og kvæntist þá Arnþrúði dóttur Jóns Ingimundarsonar, sem þá var dáinn.

Hafi Jón Árnason búið á Vakursstöðum frá því laust eftir og fram yfir 1730, þá gátu þar verið skilyrði fyrir því, að Jón í Ási hefði getað gefið sig við bókum og látið vera að vinna, nema það sem honum gott þótti eða brýna nauðsyn bar til, eins og séra Jón getur um.

Heldur gæti það verið til stuðnings þessari ættfræðslu, að Árni Gunnarsson frá Skálanesi býr í Ytri-Hlíð 1734, í tvíbýli þó, en það er næsti bær við Vakursstaði, gegnt Búastöðum. Var eðlilegt að þeir vildu vera í nágrenni uppeldisbræðurnir og bræðrasynirnir, Þorgrímur á Vakursstöðum og hann. Annars er allt ókunnugt um Árna.

Ef gefa ætti gaum sögu Agnesar, um að Jón í Ási og Sigríður væru fædd á Egilsstöðum, þá er ekkert kunnugt um ábúendur þar frá 1703 til 1723, gæti því saga hennar þess vegna verið sönn. En 1723 bjó Ingimundur Jónsson þar, faðir Jóns Ingimundarsonar. Þar er þá og Tómas Ólafsson. Tómas er þar líka 1730. Þá eru þar líka Jón Finnbogason og 2 Jónar Jónssynir. Engin líkindi finnast því til þess, að Jón og Sigríður hafi fæðst þar og alizt upp, að því er þetta snertir. Enda er það, sem að framan segir, miklu líklegra.

Eftir því sem nú hefur verið sagt, ættu börn Jóns Árnasonar á Vakursstöðum að vera Sigríður, fædd um 1682, Ólöf, f. um 1686, Þorgrímur, f. um 1688, Guðrún f. 1689, Guðrún önnur f. 1693 og Jón fæddur 1693, Guðný f. eftir 1703 (ef hún hefur verið til), Jón annar, f. um 1705—1707, Stefán, f. um 1711. Öll börn Guðrúnar, konu Jóns, nema líklega 2—3 þau síðustu.

Nafnalíkingar eru hér litlar. Auðvitað hafa líklega ýms börn dáið og verður ekki um þau vitað. En meðal þeirra sem kunnug eru, eru nafnalíkingar ekki miklar. Árni og Gunnar koma ekki fyrir. Guðnýjarnafn kemur lítið fyrir, nema dóttir Sigurðar á Grímsstöðum og Guðrúnar ein hét Guðný. En það gat verið móðurnafn Guðrúnar. En Guðrúnarnafnið er títt. Dóttir Jóns Ingimundarsonar og konu hans hét Guðrún. Dóttir Þorgríms hét Guðrún. En ekki áttu þeir Jón í Ási og Stefán Guðrúnu fyrir dóttur svo að kunnugt sé, enda hafa þeir líklega ekki verið synir Guðrúnar konu Jóns Árnasonar. En Sigríður heitir ein dóttir Jóns í Ási og gat það verið systurnafn hans. Sigríður hét einnig dóttir Jóns Jónssonar Ingimundarsonar, og gat það einnig verið nafn Sigríðar á Nýpi, sem hefði verið móðursystir hans og merk kona í sveit hans. Ólöf hét einnig dóttir Sigríðar á Nýpi og Stefáns í Breiðuvík, og gat það verið systurnafn þeirra. En allt eru þetta smávægilegar bendingar og þó heldur til stuðnings þessari ættfærslu.

Jón Sigfússon segir enn, að Þórður Jónsson, sem bjó í Austurskálanesi 1785, 78 ára, faðir Þorgríms föður Jóns á Ýmastöðum í Vaðlavík (sem var samtíða Jóni Sigfússyni og Jón hefur þetta líklega eftir) hafi verið launsonur Jóns í Ási, en það getur þó ekki verið, því að Jón í Ási og Þórður eru jafngamlir. Hitt mun heldur vera, að Guðrún Þorgrímsdóttir, kona Þórðar (f. um 1733) hafi verið bróðurdóttir Jóns í Ási. En þessi ættfærsla, þótt rugluð sé, bendir þó til Jóns í Ási, og afkomendur Þórðar og Guðrúnar hafi vitað að þeir væru sömu ættar sem Jón. Þórður gat að vísu verið launsonur Jóns föður Jóns í Ási, og hálfbróðir hans, en ekki launsonur. En það er þó ólíklegra, en að Guðrún hafi verið dóttir Þorgríms, bróður hans. Af Jóni, föður Jóns í Ási, eru afkomendur Þórðar og Guðrúnar vafalaust komnir.

Þó að eigi sé fullvíst, að þessi ættfærsla Jóns í Ási og systkina hans sé eins og hér hefur verið talið, þá virðist mér hún ganga svo nærri fullri vissu, að ég rek hér ættina þannig. Það sem víst er er það, að Sigríður á Nýpi, Jón í Ási og Stefán í Stóru-Breiðuvík voru systkin og sem næst víst, að kona Jóns Ingimundarsonar og Þorgrímur á Vakursstöðum hafi einnig verið systkin þeirra.

ATHUGASEMD:

Í eftirmælum eftir Valgerði Þorsteinsdóttur á Bægisá, ekkju séra Gunnars Gunnarssonar í Laufási í blaðinu Austurland, er Jón í Ási talinn sonur Jóns sonar Kjartans, sem býr á Egilsstöðum 1703, Jónssonar. En sú ættfræðsla er röng. Sá Jón Kjartansson bjó víst aldrei á Egilsstöðum, heldur á Svínabökkum og í Krossavík. Sjá nánar um hann viðnr. 3855.

12210

Jón Árnason, sonur Árna Gunnarssonar bónda á Austurskálanesi (1676 og 1681) bjó á Skjaldþingsstöðum 1703 43 ára og eftir 1703 á Vakursstöðum fram yfir 1730. Kona hans hét Guðrún Jónsdóttir 43 ára 1703. Þeirra börn: Sigríður, f. um 1682, Ólöf, f. um 1686, Þorgrímur, f. um 1688, Guðrún, f. um 1689 12257, Guðrún önnur 12258, f. um 1692, Jón, f. um 1693 12259. Og enn eru börn Jóns: Guðný 12260, f. eftir 1703, Jón 12261, f. 1705—7 og Stefán 12296, f. um 1711. Gunnar Árnason, bróðir Jóns, bjó í Norðurskálanesi 1703 og 1723, átti Þórunni Magnúsdóttur. Þ. s. Árni, f. 1701, bjó í Ytri-Hlíð 1734.

12211

a Sigríður Jónsdóttir, f. um 1682 (ef aldurinn 1703 er rétt ritaður), átti Sigurð Indriðason 12048 bónda á Ytra-Nýpi.

b Ólöf Jónsdóttir, f. um 1686, er í Norðurskálanesi hjá Gunnari föðurbróður sínum 1703, 1.

12212

c Þorgrímur Jónsson, f. um 1688, ólst upp í Norður-Skálanesi hjá Gunnari föðurbróður sínum, er á Vakursstöðum 1723 og 1730, og býr þar einn 1734. Kona ókunn. Börn hans voru eflaust: Illhugi í Fremri-Hlíð og Guðrún í Austur-Skálanesi. (sjá nr. 4941). Það er áreiðanlegt að þau voru systkin.

12213

aa Illhugi Þorgrímsson, f. um 1731, bjó í Fremri-Hlíð (1785, 54 ára), átti Hólmfríði Hallgrímsdóttur (þá 50 ára), f. um 1735. Þ. b. 1785: Hallgrímur (16), Indriði (11) og Þorkatla ().

12214

aaa Hallgrímur Illhugason bjó á „Lóni og Ærlæk“. Síðari kona hans var Ingibjörg, dóttir Skíða-Gunnars 13149 Þorsteinssonar.

12215

bbb Indriði Illhugason fór ungur norður í Mývatnssveit, er á Baldursheimi 1804 eða 1805, nýkvæntur. Fluttist 1810 að Þverá í Reykjahverfi og bjó þar til dauðadags, dó 17. des. 1843. Hann átti I. Rósu Guðmundsdóttur bónda í Kasthvammi í Laxárdal Árnasonar og Ólafar Hallgrímsdóttur smiðs Jónssonar, systur séra Gunnars í Laufási. Þ. b.: Hólmfríður, Málfríður, Rósa, Ólöf og Sigurlaug.

α  Indriðadóttir átti Jón bónda á Hafralæk Jónsson á Hólmavaði Magnússonar (f. um 1723) Jónssonar. Þ. b. allmörg, þar á meðal Friðjón á Sandi, faðir Guðmundar skálds, og Friðlaugur á Hafralæk faðir Kristínar konu Indriða á Fjalli Þorkelssonar.

12221

ccc Þorkatla Illhugadóttir átti Pétur Vilhjálmsson á Hóli á Langanesi 4941.

12222

bb Guðrún Þorgrímsdóttir, f. um 1733, átti Þórð Jónsson, f. um 1707. Þau Guðrún búa í Austur-Skálanesi 1785, hann talinn 78 ára en hún 52. Hjá þeim eru synir þeirra: Þorgrímur 1 og Jón 15 ára.

12223

aaa Þorgrímur Þórðarson var í Húsavíkursókn nyrðra og dó þar í Skógargerði 1814, var víst ógiftur en átti 2 launsonu með Helgu Halldórsdóttur (f. um 1777), hétu Benjamín, f. 10/7 1794 á Þorvaldsstöðum þar og Jón, fæddur í Skógargerði þar 3/11 1812.

12224

α Benjamín Þorgrímsson, f. 10/7 1794, fór austur, átti fyrst barn með Guðrúnu Vigfúsd. frá Fremra-Seli Tómassonar 9342, hét Helga, er varð kona Páls Sigurðssonar, sjá nr. 8680. Ætlaði Benjamín að eiga hana, en hætti við og kvæntist Guðrúnu Gísladóttur frá Bót Jónssonar 2135 á Bessastöðum Sigurðssonar. Laundóttir Benjamíns við Sólrúnu Andrésdóttur í Bakkagerði í Hlíð 2161, hét Kristín.

12225

β  Jón Þorgrímsson, f. 3/11 1812, bjó á Barðsnesi í Norðfirði (1845) og Ýmastöðum í Vaðlavík, átti Þuríði Jónsdóttur 12374 frá Stóru-Breiðuvík Ásmundssonar. Þ. b.: Benjamín, Björn, Ásmundur, Halldóra, Rannveig, Sólveig. Laundóttur áður en hann kvæntist, við Vilborgu Jónsdóttur blinda 13307, hét Helga. Laundóttir Jóns var Þuríður, kölluð Hjálmarsdóttir, er átti Helga Ásmundsson á Kirkjubóli í Vöðlavík 4550 (sjá 4243).

12226

αα Benjamín Jónsson bjó á Ýmastöðum, átti Ólöfu Stefánsdóttur 2730. Þ. b.: Stefán, Sólveig Jóhanna, Sigvaldi, Jón, Guðrún Björg.

12227

ααα Stefán Benjamínsson bjó í Norðfjarðarkauptúni, átti Vilhelmínu Guðnýju Ásmundsdóttur, bræðrungu sína. Þ. b.: Ásmundur, ókv., bl., Ólöf, dó um tvítugt, Þórunn Elízabet, Bjarný, Guðrún Bentína, Guðný Stefanía, Friðjón, Halldór. Stefán drukknaði á Norðfirði um 1916, og Ásmundur sonur hans með honum.

12228

+ Þórunn E. Stefánsdóttir átti Harald Ólafsson Árnason 4320. Hann drukknaði. Þ. einb.: Haraldur.

Númerin 12229 og 12230 vantar í hdr.

12231

βββ Sólveig J. Benjamínsdóttir átti Guðmund Magnússon Guðmundssonar í Litlu-Breiðuvík. Þ. b.: Ólöf, Ölver Sigurður, Benjamín, Marteinn, Steinunn, Stefanía. Þau Guðmundur og Sólveig bjuggu á Ýmastöðum, fluttust svo í Norðfjörð.

12232

+ Ólöf Guðmundsdóttir átti Björgólf Gunnlaugsson úr Héraði. Þ. b.: Soffía, Anna, Guðmundur.

12233

ggg Sigvaldi Benjamínsson bjó í Vestmannaeyjum, átti Guðlaugu Þorsteinsdóttur frá Haga í Mjóafirði. Þ. b.: Ólöf, Bjarný.

12234

đđđ Jón Benjamínsson átti I. Önnu Sigríði Sveinsdóttur 423 frá Viðfirði. Þ. b.: Sveinrún, Bjarný Rannveig, Óli Benjamín, Hermann og Lilja, tvíburar, Anton Sigurður. II. Margréti Sveinbjörnsdóttur Sveinbjörnssonar úr Mjóafirði. Þ. b.: María. Jón var útvegsbóndi í Norðfirði.

12235

εεε Guðrún Björg Benjamínsdóttir átti Magnús Guðmundsson 7248 hreppstjóra í Skálateigi. Þau bjuggu fyrst 3 ár á hálfum Ormsstöðum, þá nýgift, svo 3 ár í Fannardal, og svo frá 1911 í Skálateigi.

12236

ββ Björn Jónsson bjó á Ýmastöðum, átti Svanhildi Magnúsdóttur 7415 frá Rima Magnússonar. Þau lentu á sveit.

12237

gg Ásmundur Jónsson bjó á Karlsstöðum og síðast á Vindheimi í Norðfirði, átti Þórunni Halldórsdóttur 2812 frá Naustahvammi.

12238

đđ Halldóra Jónsdóttir átti Svein á Grænanesi Þorgrímsson 4346. Þ. b.: Árni, Sveinbjörg.

12239

εε Rannveig Jónsdóttir átti Andrés Jónsson 5209 á Vöðlum.

12240

ſſ Sólveig Jónsdóttir átti Jón bónda í Kóreksstaðagerði 12900 Þorleifsson. Am.

12241

33 Helga Jónsdóttir (laungetin) átti Hjálmar bónda í Dammi 4243 í Sandvík Jónsson.

12242

bbb Jón Þórðarson, f. 1770, bjó á Skjöldólfsstöðum, átti Valgerði Hallsdóttur 13643 Andréssonar frá Eyjólfsstöðum. Þ. b.: Jón, Ingibjörg, Hallur, Margrét.

12243

α  Jón Jónsson átti Ragnhildi Gísladóttur 2125 frá Hvanná Jónssonar.

12244

β  Ingibjörg Jónsdóttir átti Guðmund Gíslason bróður Ragnhildar 2124.

12245

g Hallur Jónsson bjó á Ekru, átti Guðrúnu dóttur Eiríks bónda í Torfastaðaseli (sbr. 10996) 13046 Hermannssonar og Þuríðar Árnadóttur. Eiríkur var fæddur í Hólshjáleigu um 1769, var síðast hjá Þorkeli Ólasyni á Hallgeirsstöðum, kallaður þá „frændi hans“ (1794). Þuríður kona hans er fædd í Eyjaseli um 1762. Þ. b.: Eiríkur, Jón, Valgerður.

12246

αα Eiríkur Hallsson bjó á Ósi og Hrærekslæk (lengst), mesti dugnaðarmaður og vænn maður, átti Önnu Jónsdóttur Jónassonar og Guðbjargar Grímsdóttur, beggja að norðan. Þ. b.: Guðrún, Sigríður, Rannveig, Níels, Gísli, Stefán. Öll í Ameríku.

12247

ααα Guðrún Eiríksdóttir átti Hall Jónsson bræðrung sinn 164. Am.

βββ Sigríður Eiríksdóttir átti Pál Guðmundsson 10665 Ásgrímssonar á Hrærekslæk. Am.

12248

ββ Jón Hallsson bjó hér og þar, síðast í Másseli, fátækur, átti Ingibjörgu Sæbjörnsdóttur 161 frá Hrafnabjörgum. Am.

12249

gg Valgerður Hallsdóttir átti Guðmund Jónsson 2129 bræðrung sinn.

12250

đ Margrét Jónsdóttir Þórðarsonar átti Einar Jóhannesson Jónssonar. Jóhannes var bróðir Þorvalds föður Jóns á Vöglum í Blönduhlíð, bjó lítið en var ráðsmaður hjá Þórði sýslumanni Björnssyni. Kona Jóhannesar og móðir Einars var Ingibjörg Þorgeirsdóttir (sbr. 12251) bónda í Eyjafirði (Galdra-Þorgeirs). „Hún var vargur, hann stríðinn og kom þeim illa saman“, sagði Jóhannes á Hrappsstöðum, sonarsonur þeirra. Einar og Margrét áttu 10 börn. Upp komust: Jón, ókv., bl., Jóhannes, Aðalbjörg, Guðmundur, ókv., bl., Guðfinna, óg., bl., Guðrún. Einar og Margrét bjuggu fyrst á Skeggjastöðum á Dal, síðan í Hólsseli á Fjöllum og víðar, seinast og lengst á Bangastöðum í Kelduhverfi. Hann var mesti dugnaðarmaður og greiðamaður; byggingamaður mikill. — Systkini Einars og börn Jóhannesar og Ingibjargar voru: Ingibjörg, fyrsta kona Þorleifs Arnfinnssonar á Hrjót, 1808, og Aðalbjörg, sem barn átti við Þorgrími stóra.

12251

αα Jóhannes Einarsson, fjörmaður og mesti dugnaðarmaður, bjó á Ísólfsstöðum á Tjörnesi, Sultum, Ávegg, Meiðavöllum og síðast frá 1884 á Hrappsstöðum í Vopnafirði, átti Þóru Einarsdóttur bónda á Kvíslarhóli á Tjörnesi, bróður Magnúsar föður Jóns Magnússonar bónda á Skeggjastöðum á Dal. Þeir voru Péturssynir. Móðir þeirra hét Helga Ögmundsdóttir. Hét móðir hennar Guðrún Björnsdóttir. Systir Ögmundar var Herdís kona Galdra-Þorgeirs (er Þorgeirsboli er við kenndur) móðir Ingibjargar móður Einars föður Jóhannesar. Jóhannes og Þóra voru þannig fjórmenningar. (Sjá annars nr. 9721).

Um föðurætt sína sagði Þóra annars það er nú segir:

„Séra Ketill í Húsavík átti 30 börn, segir í „Afmælunum“, bók eftir séra Jón Ketilsson (12564). (Ekki hef ég skrifað nánar um það, hver séra Jón það hefur verið, en líklega er það séra Jón í Hvammi sonur séra Ketils). Þar á meðal voru 2 Guðrúnar.“

a.  Guðrún Ketilsdóttir önnur átti I. Sigurð sunnlennzkan. Þ. b.: Sigurður, ókv., bl. og Guðrún. II. Ásmund. Þ. b.: Sigurður ókv., bl., Bergþóra óg., bl., Þuríður og Rannveig. Þær tvær fóru vestur til ættingja sinna.

aa  Guðrún Sigurðardóttir átti Jón bónda í Ytri-Tungu á Tjörnesi Semingsson. Systur hans voru: Marsibil móðir Bólu-Hjálmars og Guðbjörg móðir sr. Ólafs stúdents og Semings. Hann fór vestur. Þ. b.: Guðrún, Ása, Þóra óg., bl.

aaa Guðrún Jónsdóttir átti Einar Pétursson bónda á Kvíslarhóli og Mýrarkoti á Tjörnesi, bróður Magnúsar Péturssonar á Skeggjastöðum á Dal, föður Jóns. Móðir þeirra var Helga Ögmundsdóttir (eins og segir hér að framan). Þ. b.: Guðrún, Jón, Þóra, Einar.

α  Guðrún Einarsdóttir átti Pétur bónda á Ísólfsstöðum á Tjörnesi Pétursson úr Bárðardal Jónssonar. Þ. b.: Pétur, drukknaði um tvítugt, og Helga.

αα Helga Pétursdóttir átti Björn bónda á Hallbjarnarstöðum á Tjörnesi Stefánsson Gíslasonar prests á Húsavík.

β Jón Einarsson bóndi í Breiðuvík á Tjörnesi átti Sigurlaugu Jónsdóttur úr Flatey Magnússonar. Þ. b.: Guðrún, Am., Jón, Einar, Þorbjörg, Pétur, Sigurður.

g Þóra Einarsdóttir, f. um 1836, átti Jóhannes Einarsson 12251 á Hrappsstöðum.

đ Einar Einarsson bjó lítið, átti Sofíu Þorkelsdóttur. Þeirra einbirni: Sesselja.

bbb Ása Jónsdóttir átti Jón bónda í Syðri-Tungu á Tjörnesi Ásmundsson bónda á Fjöllum (sem var síðari maður Guðrúnar Ketilsdóttur, en átti síðar aðra konu og mörg börn). Þ. b.: Jón, Sigríður, Am., Sigurbjörg, Ásmundur, Guðrún og Sigurður.

α Jón Jónsson bóndi í Mýrarkoti átti Arnbjörgu Aradóttur frá Hamri. Hún fór ekkja til Ameríku með börn sín.

β Sigurbjörg Jónsdóttir átti Jakob Oddsson frá Rauf. Fór til Ameríku.

g Sigríður Jónsdóttir átti Jóhannes launson séra Ólafs stúdents. Am.

đ Ásmundur Jónsson bjó á Auðbjargarstöðum í Kelduhverfi, átti Kristbjörgu Arngrímsdóttur Bjarnasonar í Fellsseli.

ε Guðrún Jónsdóttir átti Stefán Pétursson 2702 Hákonarsonar á Grjótnesi. Am.

ſſ Sigurður Jónsson fór vestur og kvæntist þar.

b Guðrún Ketilsdóttir frá Húsavík önnur, átti séra Sigfús í Höfða. Þ. b.: Þórvör kona sr. Skúla í Múla og Halldóra óg., móðir Magnúsar læknis.

Börn Jóhannesar á Hrappsstöðum og Þóru voru: Jón, Jóhanna, Einar, Margrét, Aðalbjörg, Magnús, Jóna. Fór allt til Am.

12252

ααα Jón Jóhannesson átti Margréti Jónsdóttur „skörungs“ 9596.

12253

βββ Jóhanna Jóhannesdóttir átti Runólf á Felli Magnússon. Am.

12254

ββ Aðalbjörg Einarsdóttir átti Guðmund Snorrason frá Stórubrekku hjá Möðruvöllum. Bjuggu á Meyjarhóli hjá Möðruvöllum. Voru fátæk, áttu mörg börn. Hún var þjónusta skólapilta á Möðruvöllum.

12255

gg Guðrún Einarsdóttir átti Guðmund bónda á Nýjabæ í Kelduhverfi, son Guðmundar á Hallbjarnarstöðum Sveinssonar og Önnu systur Finnboga í Klömbrum. Þ. b.: Jóhanna, Einar, Njáll, Guðmundur, Kristín.

12256

ααα Jóhanna Guðmundsdóttir átti Björn amtskrifara Árnason.

12257

d Guðrún eldri Jónsdóttir Árnasonar á Vakursstöðum f. um 1689, hefur líklega dáið ung.

12258

e Guðrún yngri Jónsdóttir Árnasonar, f. um 1692, hefur líklegast verið kona Jóns Ingimundarsonar á Vakursstöðum 12001.

12259

f Jón Jónsson Árnasonar, f. um 1693, hefur líklega verið sá Jón Jónsson, sem eftir reikningsbókum Vopnafjarðar var í Skógum fyrir 1723, á Vakursstöðum 1723—1730, er fór í Haugsstaði 1730 og hefur verið faðir Guðrúnar konu Jóns sonar Jóns Ingimundarsonar (12002). En þá hefðu þau verið systkinabörn.

12260

g Guðný Jónsdóttir Árnasonar átti Jón Ingimundarson á Vakursstöðum 12001, ef hún hefur verið til. En líklega er kona hans heldur Guðrún yngri dóttir Jóns Árnasonar (12258).

12261

h  Jón Jónsson í Ási (12210) er fæddur 1705—1707. Hann er talinn í kirkjubók Garðs 1798 91 árs, en sr. Jón Þorsteinsson, sonarsonur hans, hefur það eftir honum sjálfum að hann hafi verið 94 árið sem hann dó, 1799. Jón bjó fyrst í Möðrudal og hefur verið farinn að búa þar fyrir 1745. Það ár er Þorsteinn sonur hans fæddur í Möðrudal (eftir aldri hans 1816, 71 árs. En eftir skólakomu hans: 1749 eða 1748. Þaðan fluttist hann að Grímsstöðum við Mývatn 1756 og var þar 1 ár. Þá fluttist hann að Stóru-Reykjum 1757. En keypti síðan Ás í Kelduhverfi með hjáleigum 1773 og fluttist þangað 1775 og bjó þar síðan til dauðadags. Hann dó 20. des. 1799.

Hann var „hár maður og þrekinn og atgervismaður mikill, skýr og stilltur, og héldu sumir að hann færi með forneskju“, segir Jón Sigfússon. Aðrir segja að hann hafi verið „harðgerður svoli“.

Hann varð þríkvæntur, átti I. Þuríði Guttormsdóttur 7178 frá Hjarðarhaga. Þau hafa gifst skömmu eftir 1730 og farið þá að búa í Möðrudal. Hún hefur dáið um eða litlu eftir 1740 og hefur verið fædd eftir 1703. Þ. b.: Jón og Stefán. Þá kvæntist Jón II. Ásu dóttur Guðmundar bónda í Vogum við Mývatn 7869 Guðmundssonar á Kálfaströnd Kolbeinssonar. Móðir Guðmundar í Vogum var Ingibjörg dóttir séra Gunnlaugs Sölvasonar í Möðrudal, systir Sölva í Hjarðarhaga föður Guttorms. Hafa því þessar fyrstu konur Jóns verið þrímenningar. Jón Sigfússon segir þá sögu um það, er Jón fór að biðja Ásu, að hann hafi gefið henni treyju (og hring) af fyrstu konu sinni, en hún hafi eigi viljað þiggja. Fór hann þá svo búinn og fylgdarmaður hans, en hefur víst skilið treyjuna eftir. Þegar þeir voru farnir, fór Ása að skoða treyjuna og fór í hana. Fannst henni þá að hún hæfði sér vel. Fór hún þá eftir þeim Jóni og kallar til þeirra og biður þá bíða sín. Þeir gerðu svo. Þegar Jón sá, að það var Ása sem kom, sagði hann: „Ekki er guð enn vikinn frá Jóni, Ása kemur hér hlaupandi.“ Þegar þau fundust, varð það úr að þau trúlofuðust. Giftust þau síðan og bjuggu í Möðrudal fyrst ein 12—14 ár.

Móðir Ásu hét Vigdís og er víst dóttir Ingjalds hreppstjóra í Vogum Jónssonar, er þar bjó 1703 60 ára (járnsmiður). Guðrún Þorkelsdóttir (5) er þá „bústýra“ hans, en kona hans eflaust dáin. Yngsta barn hans, Matthildur, er 12 ára, Guðrún systir hennar og Vigdís, báðar taldar 21 árs. Þá er Guðmundur frá Kálfaströnd vinnumaður á Geiteyjarströnd, 15 ára, og hefur verið næst yngstur systkina sinna. Hann hefur síðan búið í Vogum eftir Ingjald. — Önnur Vigdís gæti komið til álita. Það er dóttir Erlends Einarssonar skipasmiðs, sem þá bjó á Geirastöðum 44 ára og Þorgerðar Jónsdóttur 43 ára. Sú Vigdís er þá 7 ára.

Börn Jóns og Ásu voru: Þorsteinn, Jón, Guðmundur, Vigdís, Kristín, Sigríður. Ása dó 1784 eða 83. Skifti eftir hana 2/7 1784.

Síðast átti Jón Þorgerði Þorláksdóttur bónda í Ólafsgerði í Kelduhverfi og Svínadal Jónssonar. Þorlákur var bræðrungur séra Ingjalds í Múla. Móðir Þorláks hefur líklega verið Þorgerður dóttir Þorláks bónda á Geiteyjarströnd 1703 (35 ára) og Guðrúnar Ingjaldsdóttur hreppstjóra í Vogum Jónssonar. Þorgerður sú er 4 ára 1703, og hét Ása systir hennar, 2 ára. Væri nú Vigdís dóttir Ingjalds í Vogum, móðir Ásu miðkonu Jóns í Ási, og Guðrún Ingjaldsdóttir móðir Þorláks föður Þorgerðar, systur, þá hefðu þær Ása og Þorgerður, síðasta kona Jóns í Ási, verið að 2. og 3. Sýnist þessi ættfærsla ganga nærri fullri vissu.

Séra Jón Þorsteinsson segir, að Jón í Ási afi sinn, hafi kvænzt Þorgerði 87 ára gamall og þau verið 7 ár í hjónabandi. Eftir því hefðu þau átt að giftast 1792. En 1792—3 er Þorgerður heima hjá foreldrum sínum í Ólafsgerði. Þau sýnast hafa komið þangað vorið 1792 einhvers staðar að. Líklega hafa þau ekki giftst fyrr en 1793. Áttu fyrst eitt barn sem dó strax (segir sr. Jón), síðan Guðrúnu, sem er 5 ára 1801 og því fædd 1795 eða 1796, og síðast Þorlák, sem er 3 ára 1801, og því fæddur 1798. Hann dó ungur, en Guðrún varð rúmlega tvítug, efnileg stúlka. Þorgerður er talin 24 ára 1798 og 27 ára 1801, og er því fædd um 1774. Hefur hún því verið um 19 ára þegar hún giftist Jóni, en hann um 86 ára. Ef þau hefðu ekki gifzt fyrr en hann var 87 ára, eða 1794, þá hefðu þau ekki verið saman nema 5 ár, nema hún hefði fyrst verið vinnukona hjá honum, sem vel getur verið, og verið þá 20 ára, er þau giftust.

Þorgerður átti síðar (1800 eða 1801) Þorberg, son Jóns bónda á Hallgilsstöðum á Langanesi Þorbergssonar í Miðfirði Þórarinssonar. Þau bjuggu á Austara-Landi í Öxarfirði og var þeirra son séra Bergvin á Eiðum, sem átti Sigríði dóttur séra Þorláks á Svalbarði Hallgrímssonar. Þeirra börn voru 1845: Þorlákur 1098 (19 ára), Þorbergur 7003 (18), Þorgerður 6451 (10), Jón (8), Guðrún Elsa (6), síðar Sigríður 6451. Þorbergur var kvæntur áður og hafði átt Guðrúnu (d. 1796), dóttur séra Snæbjörns Halldórssonar í Grímstungum, hét Guðrún dóttir þeirra, f. 1796. Þorgerður á 3ja mann, sem Jósef hét, barnl. Hún lifir á Eiðum 1845.

Frásaga séra Jóns Þorsteinssonar um Jón í Ási, afa hans, hljóðar þannig, öll:

„Jón sálugi, afi minn, ætla ég að sé fæddur og uppalinn á Vakursstöðum í Vopnafirði. Þar bjó Jón faðir hans, og veit ég ekkert um hann, nema hann átti nokkur börn. Fór Stefán sonur hans að Karlsskála í Reyðarfirði, giftist, átti börn, og er ætt frá honum komin hér í fjörðum. Líka dreifðist ætt Jóns langafa míns norður á Hólsfiöll og eru þaðan margir afkomarar og allt fólk við gildari mun. Jón sál., afi minn, gaf sig lítið að vinnu allt að þrítugsaldri, nema stórgöngum, þegar svo bar undir, en lagði sig allt eftir bókum og lögum, því hann var gáfaður og skynugur mjög. Um þetta bil kvæntist hann sinni fyrstu konu, en hvort hún hét Sigríður eða Þuríður, þori ég ekki að fullyrða. Byrjaði hann búskap í Möðrudal á Fjalli, og svo sem hann var stærri og sterkari en aðrir menn, tók hann ákaflega að þjóna. Þar tók hann líka að smíða allsterklega en ekki fagurt. Í Möðrudal var sem 2 höfuð væru á hverri skepnu, sér í lagi sauðfé og hestum. Hann átti börn við konu sinni hvar af 2 komust á legg, hét sonurinn Jón, varð gamall, átti börn, þó fá. Þessi fyrsta kona afa míns sálaðist síðar í Möðrudal. Eftir það bað hann Ásu, dóttur góðs bónda, Guðmundar í Vogum við Mývatn og fékk hennar. Nokkru síðar, seint í hallærinu, sem gekk 1751—57, flutti hann sig að Mývatni á eign og óðalsjörð Ásu konu sinnar, Grímsstaði, en rak þaðan fólk, sem þar hafði lengi verið og það nauðugt. Á því ári dreymdi hann, og þó seint, að maður kæmi til sín og sagði: „Bölvuð sé jörð, sem býr þú á“ (blessist ekkert á henni meðan þú ert þar inni). Daginn eftir fann hann það burtrekna fólk og sagði því, að hann skyldi fara burt, en það skyldi aftur fara á jörðina, og það varð, og bjó það fólk þar langa ævi til dauðadags. Þá fór hann að Stóru-Reykjum í Grenjaðarstaðasókn, hverja jörð hann keypti með 2 hjáleigum, Holtakoti og Brekknakoti, báðum byggðum. Þar bjó hann lengi, átti mörg börn en græddi samt fje. Þar gaf hann með föður mínum í skóla og varð hann dímitteraður. Hann lét og Guðmund son sinn í skóla, en hann hætti aftur. Arnóri lét hann kenna í heimaskóla, og fór það á sömu leið, því báðir voru gáfulitlir. En stúlkurnar, Vigdís, Sigríður, Kristín flugskarpar og vel fróðar. Loksins voru Stóru-Reykir brigðaðir af honum, og fór hann burt þaðan og keypti á þeim misserum stórbýlisjörðina Ás í Kelduhverfi með hjáleigum, Svínadal og Þórunnarseli, ásamt mörgum eyðikotum, sem þar höfðu farið í eyði í því áminnsta hallæri 1751—1757. Í Ási var þá mikill timburskógur, hvern hann árlega seldi, og græddist honum þar á fé. Eitthvað nokkru eftir hallærið 1784 andaðist kona hans Ása, voru þá líka börn hans gift og komin burt. Þá tók hann barnabörn sín, þegar áttu, og var þeim athvarf. Síðan bjó hann lengi í Ási með dóttur sinni fyrir ráðskonu, sem hafði misst mann sinn, þar til 87 ára, gifti sig ungri stúlku, Þorgerði, síðar móður séra Bergvins, nú á Valþjófsstað. Með henni átti hann 3 börn. Eitt þeirra dó strax, annað dálítið vaxið, og eftir daga föður síns. Þriðja barnið, Guðrún, komst yfir tvítugt, var allra mannvænlegasta stúlka, en deyði. Með konu sinni, Þorgerði, lifði afi minn í 7 ár, og dó hann haustið 1799, þá, að hans eigin sögn, 94 ára gamall. Dó hann aldeilis sóttlaust. Aldrei hafði hann brúkað læknismeðul og aldrei verið slegin æð. Þegar hann dó, var bezta tíð og rauð jörð. En um daginn segir hann við konu sína, hann ætli ekki í skóg í dag, sér sé heldur slæglegt, og dó hann þann dag, eða kannski nóttina eftir, stundi lítið, en bað rækilega. Ekki komu mörg börn af börnum hans og ekki nafnkennd. En fleira varð af því fólki langlíft. Hann eftirlét konu sinni mikið fé og nokkuð börnum og barnabörnum sínum.

Þetta er uppteiknað af sonarsyni hans 78 ára.

Hólmum, d. 14. janúar 1859. Jón Þorsteinsson.“

Jón var kallaður hinn „ríki“. Átti hann jarðeign talsverða og mikið bú. Börn hans voru sem sagt hefur verið: Jón, Stefán (eftir I. konu), Þorsteinn, Jón, Guðmundur, Vigdís, Sigríður, Kristín. Séra Jón nefnir og Arnór, er byrjað hafi skólanám. Og séra Björn Þorláksson hefur nefnt Auðunn, er orðið hafi úti á Grímsstöðum, nema það sé sami maður. Ætt frá þeim verður hér ófullkomlega rakin.

12262

aa Jón Jónsson eldri bjó í Kinn, Vatnshúsum í Kelduhverfi og víðar og átti Helgu Grímsdóttur frá Fjöllum Stefánssonar. Þ. b.: Guttormur, Ólöf, Þuríður.

12263

bb Stefán Jónsson bjó nyrðra. Hans dóttir Björg.

12264

aaa Björg Stefánsdóttir átti Jón, hálfdanskan mann. Þ. sonur: Hemert.

12265

α Hemert Jónsson varð stórkaupmaður á Vopnafirði, átti Björgu Stefánsdóttur frá Litla-Sandfelli 12922 Magnússonar. Þ. b.: Andrés Hemert og Kristján Hemert. Hann var verzlunarstjóri á Eskifirði og Akureyri. Um hann kvað sr. Jón Þorláksson: „Varla má þér vesalt hross“. (J. Sigf.).

12266

αα Andrés Hemert var kaupmaður á Eskifirði og Vopnafirði, giftist erlendis, en átti börn hér. Hið eina barn, er hann gekkst við, hét María. Móðir þess var Guðný Þorleifsdóttir 12377 skipasmiðs Stefánssonar í Stóru-Breiðuvík, bróður Jóns í Ási.

12267

ααα María Andrésdóttir átti Jón Einarsson 6335 á Víðivöllum ytri.

12268

ββ Kristján Hemert var kaupmaður á Eskifirði um tíma, varð drykkjumaður og ruglaður.

12269

cc Þorsteinn Jónsson fór í Hólaskóla 1767 (talinn þá 18 ára), varð stúdent 1772, tók eigi embætti en bjó í Reykjahlíð alla stund (talinn 71 árs 1816). Dó 11. febr. 1828. Hann átti I. Hólmfríði Jónsdóttur 3589 prests á Helgastöðum Jónssonar. Þau skildu. Þeirra son: Jón. II. Guðnýju (f. um 1757 á Hjalla í Reykjadal) dóttur Ólafs bónda á Hjalla Helgasonar á Litlu-Laugum Kolbeinssonar á Finnsstöðum í Kinn (1703) Jónssonar. Þ. b.: Kristín, f. 1800.

12270

aaa Jón Þorsteinsson, f. 24. marz 1781, vígðist 1803 aðstoðarprestur séra Þorleifs Sæmundssonar á Þóroddsstað, fékk Húsavík 1808, Mývatnsþing 1814 í brauðskiftum við séra Helga Benediktsson, bjó í Vogum og síðan 1828 í Reykjahlíð, fékk Kirkjubæ í Tungu 1848, sagði af sér 1852, dó 14. júni 1862 á Hólmum. Hann átti 6/10 1806 Þuríði (f. 2/3 1789, d. 20/10 1867) Hallgrímsdóttur 6276 frá Ljósavatni, Þorlákssonar prests á Hjaltabakka Björnssonar. Þaðan er REYKJAHLÍÐARÆTT hin yngri.

12271

bbb Kristín Þorsteinsdóttir, f. 14.9. 1800, d. 8.2. 1882, átti 6.10. 1819 Sigurð Jónsson frá Breiðumýri Sigurðssonar. Þau bjuggu á Grímsstöðum við Mývatn. Þ. b.: Guðný, Kristján, dó 19 ára, Arnfríður.

12272

α Guðný Sigurðardóttir, f. 9/11 1820, d. 19/4 1892, átti séra Jón Kristjánsson á Breiðabólsstað í Vesturhópi.

12273

β Arnfríður Sigurðardóttir, f. 8/11 1829, d. 1/4 1879, átti sr. Benedikt Kristjánsson prófast í Múla, bróður séra Jóns.

12274

dd Jón Jónsson yngri frá Ási var nyrðra.

12275

ee Guðmundur Jónsson frá Ási fór í skóla 1770, en hætti námi, bjó svo á Höskuldsstöðum í Reykjadal, byggði síðan upp Gnýstaði í Vopnafirði og dó þar 1784 eða 83. Skifti eftir hann fóru fram 16/4 1784. Hljóp búið 47 rd. 33 sk. Átti Elízabetu Einarsdóttur 3746 frá Skinnastað. Þ. b.: Herborg og María, báðar óg., bl.

12276

ff Vigdís Jónsdóttir átti Jakob bónda á Ísólfsstöðum á Tjörnesi „úr Skaftárþingum“ (segir Kr. Ág. Benediktsson). Sunnefa hét systir Jakobs. Þ. s.: Þorsteinn.

12277

aaa Þorsteinn Jakobsson ólst upp og var vinnumaður í Reykjahlíð og bjó svo á Ísólfsstöðum, átti Gunnvöru. Þorsteinn fóstri hans kallaði hann Pedda. Var hann smár vexti en harðsnúinn. (?) Þ. b.: Jakob, Guðrún, Kristíana óg., bl., Guðni, Þórný. Launsonur við Möru Pétursdóttur um 1805, hét Jón (sbr. 13526). Hún var vk. í Reykjahlíð 1800, f. um 1779 eða 80, fór síðan norður í Skeggjastaðasókn. Jón hefur verið elztur. Guðný í Firði Tómasdóttir hafði það eftir Jóni sjálfum Þorsteinssyni, að faðir sinn hefði verið Þorsteinn Jónsson í Reykjahlíð sjálfur, en ekki Þorsteinn Jakobsson.

12278

α Jón Þorsteinsson bjó á Sómastöðum í Reyðarfirði, hreppstjóri, átti Guðrúnu Erlendsdóttur 12962 Stefánssonar í Sandfelli. Þ. b.: Björg, Erlendur, óg., bl., Guðni, Pálína, Snjólaug, mállaus, Stefán, Tómas, ókv., bl., Hallgrímur, Guðný, óg., bl., Anna, Sveinbjörn, dó ungur. Launsonur Jóns hét Stefán ókv., bl.

12279

αα Björg Jónsdóttir átti Brynjólf Jónsson 4677 í Skálateigi í Norðfirði.

12280

ββ Guðni Jónsson var snikkari á Eskifirði, átti Björgu Einarsdóttur 5702 frá Hafnanesi.

12281

gg Pálína Jónsdóttir átti Ísleif Jónsson 6562 í Tunghaga.

12282

đđ Stefán Jónsson bjó í Seljateigi, átti Önnu Indriðadóttur 13200 frá Seljateigi Ásmundssonar. Þ. b.: Jónína, Guðný 4550, Ólöf, Hallgrímur 4550, Erlendur, Guðríður.

ααα  Jónína Stefánsdóttir átti Guðna bónda á Karlsskála Eiríksson Björnssonar 6942.

βββ  Guðný Stefánsdóttir átti Ólaf á Helgustöðum Helgason frá Kirkjubóli Ásmundssonar. Þ. b.: Gunnlaugur, Helgi, Stefán, Magnús, Eggert, Ólöf, Guðný, Unnur 4550.

ggg  Hallgrímur Stefánsson átti Sveinlaugu Helgadóttur, systur Ólafs. Þ. b.: Ari, Guðný, Gunnar, Anna, Helga, Ríkharð.

đđđ  Ólöf Stefánsdóttir átti Lars Jónasson á Breiðavíkurstekk. Þ. b.: Málfríður, Gunnar, Jónína, Oddný, Stefán, Helgi, Jón, Halla.

εεε  Erlendur Stefánsson fór á Vífilsstaðahæli, ókv.

ſſſ   Guðríður Stefánsdóttir átti Eirík Hansson frá Sómastöðum. Þ. einb.: Emil Friðrik 7939. Fórst af mótorbáti við Hornafjörð.

12283

εε Hallgrímur Jónsson lærði trésmíði.

12284

ſſ Anna Jónsdóttir giftist í Seyðisfirði.

12285

β Jakob Þorsteinsson bóndi á Karlsstöðum í Vaðlavík og Efra-Skálateigi í Norðfirði, átti Sigríði Árnadóttur 11725 frá Berufirði. Þ. b.: Jakobína, Þorsteinn, Guðni, Árni, Ólafur (öll ógift 1892). — Sigríður var systir Helgu móður Katrínar Þorsteinsdóttur, sem átti Sören Jacobsen á Raufarhöfn. Þorsteinn og Helga bjuggu á Strýtu hjá Berufirði. Tuliníus tók Katrínu dóttur þeirra unga. Ólst hún upp hjá honum og kynntist þar Jacobsen. Þegar Jacobsen var dáinn, studdi Tuliníus Katrínu. Börn Jacobsen og Katrínar voru: Valdemar Jacobsen (dó í Kaupmannahöfn), Karl og Helgi. Katrín varð veitingakona á Raufarhöfn fyrir tilstilli Tuliniusar.

12290

g Guðrún Þorsteinsdóttir átti Þorleif Jónsson í Efri-Skálateigi 12379.

12291

đ Guðni Þorsteinsson bjó í Helgukoti hjá Húsavík með Kristíönu systur sinni.

12292

ε Þórný Þorsteinsdóttir átti Jónas Jónsson bróðurson Ólafar móður Hólmfríðar konu Björns á Úlfsstöðum. Þ. dóttir: Jakobína.

12293

αα Jakobína Jónsdóttir átti í Ameríku Björn Jónsson frá Geitavík.

12294

gg Kristín Jónsdóttir frá Ási átti Jón bónda á Ferjubakka 3738 Einarsson prests á Skinnastað.

12295

hh Sigríður Jónsdóttir átti I. Björn Einarsson frá Skinnastað 3716, bjuggu á Egilsstöðum í Vopnafirði. Hann komst í þjófnaðarmál, og skyldi hún þá við hann og fór heim til föður síns með börn þeirra, dóu þau ung. II. varð hún seinni kona Jóns Einarssonar 14160 í Reykjahlíð.

12296

i Stefán Jónsson, bróðir Jóns í Ási (12210), fór austur í Reyðarfjörð á 20. ári, og hefur það þá verið um 1731. Hann átti I. Sesselju. Þ. b. 8. Kunnug eru: Arnbjörg, f. um 1735, og Ólöf 12341, f. um 1738. Eftir lát Sesselju átti hann barn, er Sesselja hét 12342, f. um 1745 og ætlaði að kvænast móðurinni, en þá dó hún og er ókunnug. Síðar átti hann II. Guðnýju Magnúsdóttur, systur Björns Magnússonar á Barðsnesi (1762 og áður) og síðar á Kirkjubóli í Vaðlavík (1777). Þ. b. 12. Kunnug eru: Valgerður 12344 f. um 1747, Þórunn 12350 f. um 1753, Stefán 12365 f. um 1755 og Þorleifur 12369 f. um 1761. Guðný er f. um 1721, d. fyrir 1785. Stefán er dáinn fyrir 1777. Hann bjó í Stóru-Breiðuvík við Reyðarfjörð.

12297

aa Arnbjörg Stefánsdóttir átti Árna bónda í Stóru-Breiðuvík, d. 1777, 12398 Ögmundsson. Þ. b.: Sigríður, Guðný, dó 15 ára, Sveinn, Sigríður, dó 16 ára, Kristján 12335. Börnin lentu á sveit eftir dauða Árna .

12298

aaa Sigríður Árnadóttir eldri átti I. Diðrik Reinholt snikkara útlendan, bjó á Lambeyri í Eskifirði. Þ. b.: Jafet, Árni, dó 17 ára, Stefán, Diðrik. Diðrik dó 1794 og sama ár fæddist Diðrik sonur hans. II. Vigfús bónda á Lambeyri 11409 Ögmundsson frá Sævarenda. Þ. b.: Ingibjörg.

12299

α Jafet Diðriksson átti Ingibjörgu dóttur Magnúsar prófasts Erlendssonar á Hrafnagili (S.æf. I. 269). Þau fóru norður. Þ. d. mun Guðrún Jafetsdóttir, sem dó í Silfrastaðasókn um 1887 (sögð: Búðarlofts-Gunna — en Ingibjörg Gróa á Leiti).

12300

β Stefán Diðriksson bóndi á Bauluhúsum við Eskifjörð, átti Þórdísi dóttur Þórðar á Bessastöðum í Fljótsdal Jónssonar. Þ. b.: Ingunn, dó 18 ára, Margrét, Halldóra, óg. bl.

12301

αα Margrét Stefánsdóttir, óg., átti barn við Jóni syni Bergvins prests á Eiðum, hét Stefán. Þá annað við Jóhannesi Árnasyni 9660, hét Jón.

12302

ααα Stefán Jónsson átti Elínu Einarsdóttur 5014 Þorsteinssonar Þorlákssonar. Am.

12303

βββ Jón Jóhannesson átti Elínu Magnúsdóttur pósts Björnssonar (?). Fóru á sveit í Norðfirði.

12304

g Diðrik Diðriksson átti Þórkötlu Gísladóttur Þorvarðssonar. Þ. b.: Þórður, Gísli, varð úti 18 ára, Diðrik.

12305

αα Þórður Diðriksson bóndi í Seldal átti Guðnýju Einarsdóttur, ekkju Þ. b.: Anna Sigríður, dó 13 ára, Einar, f. 1868, ókv., bl.

12306

ββ Diðrik Diðriksson átti Svanhildi Magnúsdóttur frá Rima. Þ. b.: Margrét, f. um 1873. Síðan dó Diðrik.

12307

đ Ingibjörg Vigfúsdóttir átti Ólaf Jónsson bónda á Helgustöðum 4432.

12308

bbb Sveinn Árnason bjó á Seljateigi og á Lambeyri, átti 1797 Ingibjörgu Jónsdóttur bróðurdóttur Þórarins Þorsteinssonar á Kolmúla. Þ. b.: Sigríður, Helga.

12309

α Sigríður Sveinsdóttir átti Sigurð á Sellátrum 2184 póst Steingrímsson.

12310

β Helga Sveinsdóttir, f. 18/12 1800 (ég hefi skrifað eftir Hólmabók 1801, ef ekki er misritun), átti 27/12 1818 Ludvig Conrad Frederich Kemp verzlunarþjón (assistent) á Eskifirði. Hann var fæddur í Kaupmannahöfn 16/1 1784, varð síðar verzlunarstjóri á Húsavík og þar eftir á Eskifirði. Faðir hans var Christian Jacob Kemp rennismíðameistari, skírður 15/3 1739 í Altona, d. í Kaupmannahöfn 15/2 1810. Kona hans (14/2 1783) ekkjan Dorothea Wahlgreen fædd Zinell, skírð 11/3 1759, d. 3/1 1849. Faðir Chr. J. Kemps var Hans Jörgen Kemp, f. 1688, d. í Altona 27.11. 1753. Börn Ludvigs C. F. Kemp og Helgu voru: Ludvig Rudolph, Louise, Maria, Dorothea, Christian, Niels, Juliane. Helga dó 1827. Þá fór Kemp til Danmerkur að leita sér atvinnu, en kom börnum sínum fyrir hér á meðan. Varð hann þá tollþjónn í Ringsted og bjó þar til 1837. Þá kom hann aftur og sótti börn sín. Juliane var hjá Ísfjörd kaupmanni 1829 (6 ára) og dó þar víst ung. Ludvig Rudolph var í fóstri hjá Sturlu Þórarinssyni í Vík, góðum bónda, og vildi ekki fara. Ólst hann þar síðan upp og bjó hér síðan og jók hér kyn sitt. Frá honum er: KEMPSÆTT..

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2019.