ARNHEIÐARSTAÐAÆTT

10971

Jón lögmaður Sigurðsson á Reynisstað var sonur Sigurðar sýslumanns á Reynisstað Jónssonar á Svalbarði við Eyjafjörð Magnússonar á Skriðu í Skriðuhverfi sýslumanns í Þingeyjarsýslu Þorkelssonar prests í Laufási (d. 1483) Guðbjartssonar flóka prests í Laufási Ásgrímssonar prests á Bægisá (1379—1399), Guðbjartssonar, Vermundssonar kögurs úr Færeyjum Loðinssonar. Jón Magnússon á Svalbarði var auðugur maður‚ mikilhæfur og göfugmenni, átti hann Ragnheiði (er kölluð var „á rauðum sokkum“) Pétursdóttur í Stóradal Loftssonar á Staðarhóli Ormssonar hirðstjóra Loftssonar hins ríka á Möðruvöllum (d. 1432) Guttormssonar. Kom margmenni og mikilhæf ætt frá þeim Jóni á Svalbarði og Ragnheiði, og var kölluð Svalbarðsætt hin yngri.

Kona Sigurðar á Reynisstað og móðir Jóns lögmanns var Guðný Jónsdóttir á Ökrum Grímssonar lögmanns á Ökrum Jónssonar, en Grímur lögmaður átti Guðnýju dóttur Þorleifs hirðstjóra á Reykhólum Björnssonar hins ríka hirðstjóra Þorleifssonar.

Jón lögmaður átti Þorbjörgu Magnúsdóttur 1020, systur Árna sýslumanns á Eiðum‚ og margt afkvæmi. Bogi á Staðarfelli segir um hann í S.æf. I. 562: „Jón lögmaður var góðgjarn maður og gestrisinn. Menn héldu hann kvenhollan, enda varð honum að því“. Hann missti lögmannsdæmið út úr barneign og þótti verða hart úti. Hafði hann átt barn fram hjá konu sinni og látið stúlkuna þegja um faðernið og prest afleysa hana. Tóku „commissarii konungs, Jörgen Vind og Friðrik Friis‚ það svo strangt, að þeir settu hann frá lögmannsdæminu 1618. Hann var lagamaður góður. Sagði Gísli lögmaður Hákonarson, er hann var settur frá lögmannsdæminu: „Eg hefi misst aðra hönd mína‚ slíkan skynemdarmann og lögvitring í dómarasæti mun trauðlega vera að fá“. Jón lögmaður dó 26/5 1635, 70 ára.

Launsonur Jóns hét Þorleifur, en eigi er kunnugt um móður hans. Jón Gunnlaugsson á Skjöldólfsstöðum segir 1684, að Þorleifur hafi verið barnið‚ sem Jón missti lögmannsdæmið fyrir.

10972

A Þorleifur Jónsson átti Þórunni dóttur Árna bónda á Grýtubakka Magnússonar í Stóradal Péturssonar Loftssonar Ormssonar Loftssonar hins ríka Guttormssonar og Sigríðar Árnadóttur sýslumanns á Hlíðarenda Gíslasonar. Kona Magnúsar í Stóradal og móðir Árna á Grýtubakka var Þuríður laundóttir Sigurðar prófasts á Grenjaðarstað (1534—1595) Jónssonar biskups Arasonar. (Þegar séra Sigurður ættleiddi Þuríði og las upp skjal um það fyrir kirkjudyrum á Grenjaðarstað, ætlaði Halldóra dóttir hans skilgetin að grípa af honum skjalið og sagði: „Sonur ambáttarinnar skal ekki erfa með syni hinnar frjálsu“. Prófastur mælti: „Láttu hægt‚ dóttir mín‚ þú fær nóg samt“. Þá mælti Þuríður: „Guð eigi hana móður mína‚ hún valdi mér svo góðan föðurinn“. Halldóra dó fáum árum síðar‚ ógift og barnlaus, og albróðir hennar var dáinn áður ókv., bl. Lenti því mestallt fé prófasts til Þuríðar vegna ættleiðingarinnar). Einn sonur Þorleifs og Þórunnar hét Árni.

10973

A Árni Þorleifsson bjó á Móbergi í Langadal á síðari hluta 17. aldar. Kona hans hét Guðrún Þórðardóttir Sturlusonar. Hestur Þórðar Þorlákssonar, bróður Guðbrands biskups, hreitti steini í auga Þórðar þess‚ svo að hann var síðan blindur á því. Þau Árni og Guðrún áttu mörg börn. Fjórir synir þeirra fluttust austur í Fljótsdal, en ekki er kunnugt, hvað hefur dregið til þess‚ nema ef verið gæti‚ að móðir þeirra hafi verið bróðurdóttir séra Böðvars Sturlusonar (5063), er þá var prestur á Valþjófsstað (d. 1712, fjörgamall), en ekkert er víst um það.1)

Orsökin hefur þó líklega verið öll önnur‚ verið blátt áfram harðindin á síðasta hluta 17. aldar‚ og þó einkum fellisárið mikla 1688. Var þá svo illt árferði, að menn hugðu að ekki hefði komið jafnillt ár í 100 ár. En ekki hefir þeim mönnum verið þá vel kunnugt um harðindin miklu rétt eftir 1600. Hvað sem því líður‚ þá fóru þeir bræður austur á síðasta áratug 17. aldarinnar‚ eða jafnvel rétt fyrir 1690. Þeir hafa verið taldir fjórir‚ er austur fóru: Þórður‚ Bessi‚ Erlendur og Grímur. Sumir hafa sagt‚ að Þórður hafi farið fyrst austur einn‚ en hinir komið svo á eftir. Þórður var elztur‚ fæddur um 1662. Hafi hann farið austur 1688, hefir hann þá verið 26 ára. Honum hefir litizt vel á sig í Fljótsdalnum og varð svo heppinn, að komast þegar í kynni við ekkjuna Oddnýju dóttur Páls Jónssonar á Brekku (2413), og líklega gifzt henni sama ár‚ eða vorið eftir‚ og síðan fengið bræður sína austur‚ og ef til vill foreldra sína‚ því að sumir segja‚ að Árni faðir hans hafi flutzt austur að síðustu, og víst er það‚ að Guðrún móðir hans fluttist austur‚ því að hún er hjá Þórði á Arnheiðarstöðum 1703, 74 ára. Þeir‚ sem segja‚ að Árni hafi flutzt austur‚ hafa sagt‚ að hann hafi verið bezta tófuskytta, og unnið eitt sinn 80 greni. Var eitt þeirra á Ragnheiðarfletinum í Geirastaðalandi í Tungu. Hafi það verið satt‚ þá hefur Árni flutzt austfyrr en 1688, að líkindum. Þó þurfti eigi svo að vera‚ því að hafi faðir hans verið það barn Jóns lögmanns, er hann missti fyrir lögmannsdæmið 1618, gæti Árni varla verið fæddur fyrr en nálægt 1638, og því verið um fimmtugt 1688, og því vel getað átt við refaveiðar þá og lengur.

Annars nefndi móðir mín aldrei annað en að bræðurnir hefðu flutt sig austur þrír: Þórður‚ Bessi 11006 og Erlendur 11156, og hafði hún fróðleik sinn um þá eftir móður sinni‚ sem var greind vel og minnug og var dótturdóttir Erlends Árnasonar. Um Grím hafði hún ekki heyrt‚ enda lifði hann stutt hér eystra og drukknaði í Jökulsá í Fljótsdal ókvæntur og barnlaus.

10974

a  Þórður Árnason, f. um 1662, bjó fyrst á Brekku í Fljótsdal og átti Oddnýju Pálsdóttur 2414 frá Brekku Jónssonar‚ bróðurdóttur Guttorms á Brú. Var hún því komin frá Þorsteini Jökli á Brú. Þau bjuggu síðar‚ frá 1696‚ á Arnheiðarstöðum alla stund. Jón biskup Vídalín byggði Árna‚ syni Þórðar‚ Arnheiðarstaði 5. apríl 1718, þá hafði Þórður búið þar í 22 ár. Þórður lifir og býr þar á móti Árna 1722. Á Brekku búa þau 1703 og áttu einn son‚ Árna. Þórður er þá talinn 41 árs‚ Oddný 51 og Árni 14 ára. Þá eru þar einnig dætur Oddnýjar og Einars‚ fyrra manns hennar: Helga (26) og Oddný (25). Þar er og móðir Þórðar‚ Guðrún Þórðardóttir (74) og fóstursynir 2: Jón Eiríksson (9) og Grímur Þorleifsson (10). Gæti sá Grímur verið bróðursonur Þórðar. Annars er ekkert kunnugt um hann. Vinnuhjú Þórðar eru: Bessi bróðir hans (36), Hermann Ísleifsson (40), Þórður Jónsson (22), Herdís Sigurðardóttir (24), Þuríður Sveinsdóttir (21) og Guðrún Guðmundsdóttir (18). Bú þeirra var því vel mannað. Enda bjuggu þau vel og urðu rík‚ eins og menn komust að orði‚ þó að enginn stórauður væri hjá þeim. Oddný var rausnarkona og Þórður hygginn búmaður og þótti aðsjáll. Þórður var kallaður „Poka-Þórður“. Ekki ber mönnum saman um hver orsök hafi verið til þessa nafns. Jón Sigfússon hefur sagt‚ eftir einhverjum afkomenda Þórðar‚ að hann hafi oftast borið með sér poka stóran eða smáan. Jón segir líka um hann‚ að hann hafi verið austur í Fljótsdalshéraði á hallærisárum með öðrum mönnum að vestan og verið þá á 16. eða 17. ári‚ staðnæmst þá um hríð hér eystra‚ en farið svo aftur vestur og flutzt síðan austur og reist bú á Arnheiðarstöðum og búið þar síðan. Hann hafi verið heldur smár vexti‚ eins og flestir niðjar hans‚ snarlegur á fæti og orðheppinn, og orðið fljótt efnaður.

Aðra sögu hefi ég heyrt nýlega um orsökina til pokanafnsins. Hún er sú‚ að Þórður hafi verið í lestarferð í Borgarfirði og verið kominn á leið heim til sín og verið kominn nokkuð inn í fjörðinn. Þá hafi komið maður á eftir honum með allstóran poka á bakinu og hlaupið af öllum mætti‚ en verið kominn að niðurfalli af mæði. Hefði hann þá kastað niður pokanum skammt frá Þórði og hlaupið síðan sína leið‚ eins og hann hefði haft þrek til og-verið brátt horfinn. Ekki áttust þeir orð við‚ og þekkti Þórður ekki manninn. Þórður fór þá af baki og skoðaði í pokann‚ sá að verðmætt var það‚ er í honum var‚ og tók hann síðan og gekk frá honum á hestum sínum. Hélt hann svo leiðar sinnar eins og ekkert hefði fyrir komið. Rétt á eftir sér hann 4 menn koma á eftir sér á harða hlaupum. Þegar þeir ná Þórði‚ spyrja þeir hann‚ hvort hann hafi ekki séð mann fara þar um með poka á bakinu. Hann kvað svo vera‚ það hefði maður hlaupið fram hjá sér með poka á bakinu og farið svo hratt‚ sem hann hefði getað og hlaupið í þá átt‚ er hann benti til‚ með pokann á bakinu. En ekki kvaðst hann hafa þekkt hann‚ og engin orð hefðu farið milli þeirra. Mennirnir kvöddu Þórð í skyndi og hlupu í áttina‚ er Þórður hafði bent til‚ en Þórður hélt rólega leiðar sinnar með pokann‚ og sló eign sinni á í kyrrþey. Átti það að hafa verið verðmætt mjög‚ sem í pokanum var‚ og orðið Þórði drjúgt til gróða.

En saga sú um Poka-Þórðar nafnið‚ sem ég heyrði í æsku og sem móðir mín sagði‚ að verið hefði á gangi í Fljótsdal í sinni æsku‚ og móðir sín hefði‚ meðal annars‚ sagt‚ er á þessa leið: Þórður var eitt sinn staddur á Djúpavogi á fyrri árum sínum‚ eitthvað í verzlunarerindum, og var einhestis. Reið hann hesti þeim‚ er hann kallaði Óða-Bleik, og var hinn ágætasti hestur og margalinn. Lausakaupskip eitthvert lá þá á höfninni á Djúpavogi. Þórður fór út í skipið og spurðist fyrir um kaup. Sá hann þar þá peningapoka einn álitlegan, og sýndist það happ mikið‚ ef hann gæti náð pokanum, en eigi sá hann líkindi til‚ að það gæti orðið. Hann hitti þó skipsdreng að máli og gerði sér mjög dátt við hann og gaf honum sælgæti. Hann komst að því‚ að drengur var óánægður með kjör sín á skipinu. Þórður vorkenndi honum mjög og lýsti fyrir honum‚ hversu miklu betur honum mundi líða‚ ef hann kæmst á gott heimili í sveit hér á landi. Höfðu fortölur hans mikil áhrif á drenginn, og vaknaði sterk löngun hjá honum til að komast af skipinu og öðlast sveitasæluna hér. Þórður kvaðst þá fús til að taka hann á sitt heimili. En jafnframt fór hann fram á það við hann‚ hvort hann mundi ekki geta náð peningapokanum, sem hann hefði séð‚ og komizt í land með hann svo að lítið bæri á. Hann skyldi síðan sjá um að þeir kæmust burtu með pokann‚ svo að aldrei yrði uppvíst, hvað af honum hefði orðið. Síðan skyldu þeir skipta peningunum, og mundi drengur fyrir sinn hluta geta með tímanum orðið góður bóndi í sveit‚ og mundi sér hægt að styðja hann til þess. Drengur taldi mikil tormerki á því að ná pokanum‚ og kvað það bana sinn ef upp kæmist. En hvort þeir töluðu um þetta lengur eða skemur‚ þá varð það loks að samningi‚ að drengur skyldi ná pokanum og koma með hann á ákveðinn‚ afvikinn stað á landi‚ er Þórður sýndi honum. Kvaðst Þórður mundi taka þar við honum‚ og hafa þar svo góðan hest‚ að þeir yrðu ekki eltir uppi þó að þeim yrði veitt eftirför. Er ekki að orðlengja það‚ að þetta lánaðist. Lagði Þórður svo á stað með pokann‚ og hafði dreng fyrir aftan sig. Hélt hann yfir Hraun‚ fjallveg, er svo heitir‚ skemmstu leið til Fljótsdal, og gekk ferðin greiðlega. En er þeir voru komnir alllangt á heiðina, sjá þeir menn koma þeysandi á eftir og þóttust vita‚ að menn hefðu komizt að því‚ hverjir með pokann hefðu farið. Herti Þórður reiðina og dró lengi ekki saman‚ dró hann jafnvel undan fyrst. En þó að Bleikur væri hraustur, fór svo‚ að heldur fór að draga saman með Þórði og eltingarmönnunum. Loks sá Þórður ekki önnur ráð‚ en láta drenginn af baki og hleypti síðan burtu með pokann. Eltingarmenn náðu fljótt drengnum, en sáu ekki til neins að elta Þórð. Sneru þeir síðan aftur með drenginn, og var sagt‚ að skipsmenn hefðu hengt hann daginn eftir. Þórður komst heim með pokann og átti hann að hafa orðið aðalgrundvöllurinn að Arnheiðarstaðaauð.

Einhver grunur féll á Þórð um pokahvarfið og varð mál úr‚ og vildu böndin berast mjög að Þórði. Ekkert varð þó sannað. Erlendur bróðir hans varði Þórð‚ og tókst það svo vel‚ að Þórður slapp‚ og þótti það vel gert. En ekki þótti Erlendi Þórður borga sér mikið fyrirhöfn sína.

Hvað sem um þessar pokasögur er að segja‚ þá var það almenningsmál um Þórð‚ að hann hafi átt auð sinn að þakka einhverjum poka‚ sem hefði haft mikið fé að geyma‚ en hann náð með óráðvendni í sínar hendur. Þess vegna var það eitt sinn‚ er móðir mín‚ sem komin var af Erlendi bróður Þórðar‚ var stödd á Hreimsstöðum hjá Þorsteini Gunnarssyni og Snjólaugu konu hans‚ dóttur Ingibjargar Þórðardóttur Árnasonar ríka‚ að tilrætt varð um þá bræður. Þorsteinn var kenndur, eins og oft bar til‚ og hætti þá til að kasta ertnisorðum að Snjólaugu. Sagði hann þá meðal annars: „Þú‚ Járngerður, ert komin af Erlendi. Hann var að vísu fátækur en ætíð ráðvandur, en þú‚ Snjóka‚ ert komin af Poka-Þórði, helv. þjófnum“. Var þetta að vísu sagt til storkunar við Snjólaugu, en þetta var þó í samræmi við almenningsálitið þá á þeim bræðrum.

En ekki er ólíklegt, að minna sé hæft í þessum pokasögum, en þær sýna sjálfar, eins og bjóðsagnastíllinn hefir frá þeim gengið‚ en þó líkindi til‚ að eitthvað sé hæft í, því að varla mun svo einfalt tilefni til Poka-Þórðar nafnsins eins og það‚ að hann hafi oft haldið með sér á poka‚ stórum eða smáum. En öfundin yfir uppgangi Þórðar gat gefið óvinum hans efni til ýmislegs skáldskapar‚ ef eitthvert tilefni hefði gefizt‚ þó að lítið væri. Ef mál hefði orðið úr pokatöku Þórðar og skjöl um það verið til‚ þá mundi hægt að leysa betur úr. En það mun ekki vera. Engin dómabók er til frá þeim tíma frá Múlasýslu.

Þórður hefir eflaust verið mjög forsjáll og dugandi búmaður og konan ekki síðri. En orð lá á, að enginn væri hann vitmaður og svo þótti reynast í viðureign hans og Erlendar bróður hans. Ekki áttu þau Oddný annað barn‚ er lifði‚ en Árna.

10975

aa Árni Þórðarson, f. um 1689, bjó á Arnheiðarstöðum og varð auðugur vel. Jón biskup Vídalín byggði honum Arnheiðarstaði 5/4 1718. Var hann jafnan kallaður Árni ríki. Átti hann jarðir margar. Kona hans var Kristín Brynjólfsdóttir 5509 frá Melrakkanesi Guðmundssonar og Katrínar Hjörleifsdóttur frá Geithellum. Þ. b.: Jón‚ Þórður‚ Bessi‚ Magnús‚ Sigríður, Oddný‚ Guðrún. Árni var ekki stór maður vexti‚ en starfsmaður mikill. Hann dó 1771, og hefir því verið 82 ára. Það var kölluð

ARNHEIÐARSTAÐAÆTT,

sem frá Árna kom.

10976

aaa Jón Árnason lærði og fékk Snæfellsnessýslu 1754, dó 1777. Hann bjó á Ingjaldshóli og var auðugur vel og skartmaður mikill. Hann var vinsæll af alþýðu‚ en höfðingjum þótti hann atkvæðalítill. Hann kvæntist aldrei‚ en barn átti hann eitt‚ er hann kannaðist við. Annað barn var honum kennt‚ er hann sór fyrir. Þriðja barnið var honum kennt dauðum 1777. Hét sú‚ er það gerði‚ Ragnheiður Andrésdóttir Hallsteinssonar. Hét það barn Jóhanna, og átti Gísla Runólfsson Oddssonar og börn. Illa fór um auð Jóns eftir hann látinn‚ og varð að lokum ekkert úr.

10977

bbb Þórður Árnason, f. um 1732, bjó á Skeggjastöðum í Fellum (1762), síðan eftir föður sinn á Arnheiðarstöðum, en fluttist að Eiðum 1790 og bjó þar síðan og átti „Eiðastólinn“, en svo var kölluð heimajörðin á Eiðum með Ormsstöðum og Gröf‚ Tókastöðum, Þuríðarstöðum í Reyðarfjarðardölum og Hóli í Hjaltastaðaþinghá. Þórður bjó á Skeggjastöðum í Fellum 1762, 30 ára‚ þá er kona hans 21 árs og ein dóttir fædd 1 árs.

Kona Þórðar var Ingibjörg Björnsdóttir 9148 frá Böðvarsdal Ólafssonar. Hún þótti rausnarkona, en hann þótti enginn rausnarmaður. Hún var fædd um 1736. Börn þeirra voru: Ingibjörg og Kristín.

10978

α Ingibjörg Þórðardóttir, fædd 1761, átti Jón prest Hallgrímsson (8399) í Þingmúla (1788—1811, lá síðustu ár rúmfastur af gigt‚ d. 1815) son Hallgríms prófasts á Grenjaðarstað Eldjárnssonar. Þ. b.: Sigfús‚ dó á 16. ári 1798, Ingveldur, Árni‚ dó á 16. ári 1807, Snjólaug, Þórður. Ingibjörg dó 29. apríl 1799, níu dögum eftir barnsburð, á 38. ári (að Snjólaugu). Séra Jón hafði áður átt Sigríði dóttur Jóns prófasts Högnasonar á Hólmum 8399. Hún dó á 23. ári.

10979

αα Ingveldur Jónsdóttir átti Sigfús prest Finnsson í Hofteigi 1332.

10980

ββ Þórður Jónsson bjó í Sleðbrjótsseli, og var síðari maður Sigríðar Sigfúsdóttur frá Ási 8314.

10981

gg Snjólaug Jónsdóttir, f. 1799, átti Þorstein gullsmið 13174 Gunnarssonar á Hreimsstöðum. Bl.

10982

β Kristín Þórðardóttir, f. um 1767, átti fyrst Vigfús prest í Garði 3664 í Kelduhverfi (d. 1808) Björnsson prests á Grenjaðarstað Magnússonar Björnssonar Pálssonar Guðbrandssonar biskups og var síðari kona hans. Þ. einb.: Benedikt. II. Björn prófast í Garði Halldórsson. Barnlaus. Kristín var rausnarkona mikil og reyndist góð ættingjum sínum og trygg mjög þar sem hún tók því. Hún var jafnan kölluð „Kristín í Garði“ eystra. Hún dó 1831. Hún átti auð mikinn.

10983

αα Benedikt Vigfússon varð prestur að Hólum í Hjaltadal 1827. Keypti hann Hóla af Boga Benediktssyni á Staðarfelli 1828 og vígðist sama ár og bjó síðan alla stund á Hólum. Hann varð prófastur 1835 sagði af sér 1861. Hann átti Þorbjörgu dóttur Jóns prófasts Konráðssonar 8200 á Mælifelli. Var hún einbirni. Fékk séra Benedikt mikinn auð í hendur og hélt vel á um sína daga. Þau Þorbjörg áttu dætur‚ er dóu uppkomnar úr taugaveiki ógiftar, og einn son‚ er Jón hét. Séra Benedikt hafði beitt ströngum aga við dætur sínar í uppeldi og allri meðferð á þeim‚ en skipti um‚ þegar Jón fæddist, og ól hann upp í stjórnlausu eftirlæti‚ og gengu miklar sögur og fáránlegar um uppeldi hans. Ekki þóttu þau hjón örlát.

10984

ααα Jón Benediktsson varð einkaerfingi að auð foreldra sinna. Sú saga var mér sögð í Skagafirði, að eitt sinn hefði Níels skáldi komið að Hólum‚ þá er Jón var í vöggu‚ og hafði prófastur sýnt honum drenginn. Hafði þá Níels horft á hann litla stund og sagt svo: „Þetta er þá ormurinn í Hólaauð“. En hvað sem satt er um þá sögu‚ þá reyndist Jón ormur í þeim auð. Faðir hans kom því til leiðar‚ að Jón fékk Sigríðar dóttur Halldórs prófasts Björnssonar á Sauðanesi. Voru munnmæli um‚ að þeir prófastarnir hefðu snemma gert það með sér‚ að gifta saman börn sín. Voru þeir vinir miklir. Mælt var‚ að Sigríði hefði verið nauðugt að eiga Jón‚ en þó orðið svo að vera. Faðir Jóns byggði honum snotran bæ‚ alfæran, með nægum úthýsum ofarlega á Hólatúni, og var það kallað Nýibær. Þar settust þau Sigríður að‚ en prófastur bjó í aðalbænum og ekkja hans eftir hann. Hafði nú dregist að Jóni auður mikill frá Arnheiðarstöðum, Garði‚ Mælifelli og Sauðanesi. Áður en prófastur dó‚ komst hann að því‚ að Jón var farinn að selja á laun sumar jarðir hans‚ eða lofa þeim‚ og leizt ekki á ráðlag hans. Tók hann þá það ráð‚ að hann gaf þeim börnum Jóns‚ er þá voru fædd‚ jarðeignir miklar: Benedikt Hóla með Hofi‚ Þóru Hofstaðasel og Halldóri Kálfsstaði. En ekki stoðaði það. Jón var fráleitur búskap‚ drykkjumaður mikill‚ en einrænn mjög. Hafði hann einstaka menn til að útvega sér brennivín, og horfði aldrei í, hvað það kostaði. Ætíð var matarþröng í búi hans á vorin‚ og keyptu þeir honum þá mat og annað og færðu honum heim‚ en hann fór sjaldan neitt að heiman. Var sagt‚ að þessir trúnaðarmenn hans hefðu haft lag á að græða á þeim viðskiptum, en undarlegur dómur gekk yfir þeim gróða‚ því að þótt þeir yrðu efnaðir nokkuð‚ þá eyddist það allt síðar furðu fljótt‚ þegar Jón var ekki lengur til að græða á, og lentu þeir að síðustu á sveit. Eignir Jóns eyddust óskiljanlega fljótt. En þegar þær voru farnar‚ tóku börnin til að selja eignir sínar til að hjálpa honum. Loks fór hann til Vesturheims og börn hans öll 1887 og komst þá naumast fyrir féleysi. Benedikt sonur hans var þó farinn áður‚ hafði selt sýslufélagi Skagfirðinga Hóla til búnaðarskólaseturs, en sýndist ekki meiri fjármálamaður en faðir hans. Sigríður, kona Jóns‚ var dáin. Hefir mikill auður sjaldan farið jafn hrapallega.

Annars var aðalorsökin til þess hversu honum farnaðist óheppilega hið taumlausa sjálfræði, er hann var alinn upp við‚ þar sem allt var eftir honum látið‚ er honum datt í hug að heimta‚ ef það annars var hægt‚ og aldrei látið neitt á móti honum. Hann vandist því ekki á neina stjórn á sjálfum sér‚ nema þá sem venjur og viðtektir félagslífsins neyða menn til. En ekki heldur það manntak í honum‚ að hann tæki til skynsamlegrar stjórnar á lífi sínu þegar hann eltist. Hann var hvorki hneigður til bóknáms né vinnu og ósýnt um öll fjármál. Annars var hann sæmilega vel greindur og stundum orðheppinn. Og meinleysismaður var hann og ótortrygginn við þá menn‚ er hann beitti fyrir sig og prettlaus í viðskiptum. Hugði hann víst allt of lengi‚ að auður sinn væri óþrjótandi.

10985

ccc Bessi Árnason frá Arnheiðarstöðum, f. um 1736, bjó á eignarjörð sinni Ormarsstöðum í Fellum góðu búi‚ átti I. Málfríði dóttur Árna Vigfússonar 1420 á Ormarsstöðum. Þ. b.: Jón og Árni. Þá átti hann barn framhjá konu sinni‚ er Guðrún hét. Málfríður dó 1790 eða 1791. Skipti eftir hana telja búið 391 rd. 42½ sk. II. Jófríði 12802 Magnúsdóttur frá Borg í Skriðdal Guðmundssonar. Þ. b.: Magnús 11144 og Bessi 11149. (Jófríður hafði verið áður vinnukona hjá Bessa og gert sig þá seka í einhverju smáhnupli, svo að Bessi fékk hana setta í gapastokk. Var hún einhverja mótspyrnu að sýna‚ þegar Bessi var að koma henni í gapastokkinn. Þá sagði Bessi: „Nú hjálpa engar stympingar, Jóka“). Bessi dó 1795 og hljóp þá bú hans 217 rd. 8 sk.

10986

α Jón Bessason, f. um 1769, bjó á Ormarsstöðum, átti Kristínu Þorvarðsdóttur 1649 frá Setbergi Magnússonar. Þ. b.: Jón‚ Málfríður, óg., bl.

10987

αα Jón Jónsson bjó í Refsmýri, átti Guðbjörgu Sigfúsdóttur 8325 prests á Ási Guðmundssonar og var síðari maður hennar (1096).

10988

β Árni Bessason, f. um 1772, bjó á Krossi í Fellum‚ átti I. Ingibjörgu Jónsdóttur 6919 frá Húsum Bjarnasonar. Þ. b.: Sölvi og Málfríður. II. Ingveldi Brynjólfsdóttur 4237. Þ. b.: Jóhannes og Soffía.

10989

αα Sölvi Árnason átti Ingunni Jónsdóttur „almáttuga“ 7742. Þau skildu.

10990

ββ Málfríður Árnadóttir, óg., átti barn við Pétri Hildibrandssyni 5341, er hét Ingibjörg.

10991

ααα Ingibjörg Pétursdóttir átti Þorstein norðlenzkan. Hún varð skammlíf.

10992

gg Jóhannes Árnason, ókv., átti barn við Margréti dóttur Stefáns á Bauluhúsum Diðrikssonar og Þórdísar, hét Jón.

10993

ααα Jón Jóhannesson.

10994

đđ Soffía Árnadóttir átti Valtý Magnússon 7423 frá Bárðarstöðum.

10995

g Guðrún Bessadóttir átti I. Bjarna 11247 bónda á Ormarsstöðum Rafnsson úr Vopnafirði. Þ. b.: Rafn og Guðrún. II. Bjarna bónda á Krossi Magnússon frá Hryggstekk 7337. Bl.

10996

αα Rafn Bjarnason átti Elízabetu Eiríksdóttur Hermannssonar, systur Guðrúnar konu Halls Jónssonar á Ekru 12245 og 13046.

10997

ββ Guðrún Bjarnadóttir átti Þórð bónda á Krossi 11413 Árnason Steingrímssonar. Þ. b.: Jósef‚ Bjarni‚ Guðbjörg.

10998

ααα Jósef Þórðarson.

10999

βββ Bjarni Þórðarson átti Helgu Jónsdóttur 7668 frá Geirastöðum. Barnlaus.

11000

ggg Guðbjörg Þórðardóttir. (đ Magnús Bessason. Sjá nr. 11144. — Bessi Bessason, sjá nr. 11149).

11001

ddd Magnús Árnason frá Arnheiðarstöðum átti Guðrúnu Hjörleifsdóttur frá Bakka 9488 Tómassonar. Þ. b.: Helga.
Magnús hefir víst lifað stutt. Er máske sá‚ er býr í Meðalnesi 1762, 34 ára.

11002

α Helga Magnúsdóttir, f. um 1769, átti 1792 Jón Björnsson prests Hallasonar 9004, bjuggu í Tungu í Fáskrúðsfirði. Helga er hjá Þórði föðurbróður sínum 1783, 14 ára „fósturdóttir“.

11003

eee Sigríður Árnadóttir frá Arnheiðarstöðum, f. um 1715, átti Halldór prest Gíslason 10865 á Desjarmýri. Hún dó 3. nóv. 1811, 94 ára.

11004

fff Oddný Árnadóttir f. um 1721, átti Grím prest Bessason 11008 frænda sinn á Eiðum og Hjaltastað. Hún dó 1. október 1811 á Rangá hjá Benedikt syni sínum‚ talin þá 92 ára. En 1762 er hún talin 41 árs og því fædd um 1721, og hefur því verið aðeins 90 ára. Hún hafði þá góða burði‚ heyrn og sjón‚ sem miðaldra fólk. Sýktist um kvöldið 30. sept. 1811 og dó um nóttina. Var jarðsett á Eiðum eftir ósk hennar.

11005

ggg Guðrún Árnadóttir frá Arnheiðarstöðum, f. um 1719 (talin 43 ára 1762), átti Hans Wíum sýslumann 9990 á Skriðuklaustri. Hún dó 1771.

11006

b Bessi Árnason frá Móbergi, f. um 1667, er á Arnheiðarstöðum hjá Þórði bróður sínum 1703, 36 ára‚ bjó á Hrafnkelsstöðum (1734), dó 30. apríl 1745, og hefir þá verið 78 ára. Kona hans er ókunn. Má vera að hann hafi átt Oddnýju Einarsdóttur 2416 stjúpdóttur Þórðar. Hún er á Arnheiðarstöðum 1703, 24 ára. En eigi er það nema lausleg tilgáta. Synir Bessa hétu: Þórður og Grímur. (Espholín).

11007

aa Þórður Bessason bjó á Brekku í Fljótsdal. Annars er allt ókunnugt um hann‚ og erlíklega ekki ætt frá honum.

11008

bb Grímur Bessason, f. um 1719, lærði skólalærdóm, varð fyrst djákni á Skriðuklaustri, síðar prestur í Vestmannaeyjum 1745, vígður 15/8 1745, fékk Ás í Fellum 1748, Eiða 1762 og Hjaltastað 1774, d. 21/11 1785. Hann átti Oddnýju Árnadóttur 11004 frá Arnheiðarstöðum, frændkonu sína. Jón Sigfússon segir svo um hann „Oddný þótti stirðgeðja, en séra Grímur glaðlyndur. Hann var snarlegur á fæti‚ mesti gáli‚ heldur smár vexti‚ óþveginn í orði og skáldmæltur, hirti eigi um á hverju gekk. Þau hjónin skildu borð og samvistir á Eiðum og töluðu eigi saman“. Eigi hefir þó orðið að fullum skilnaði milli þeirra‚ og eigi hefi ég annað heyrt um ósamlyndi þeirra‚ en þetta‚ sem Jón segir. Má þó vel vera að eitthvað sé hæft í. Séra Grímur var víst ekki ætíð sem prestlegastur, kerskinn og klúr í orðum‚ vel agmæltur en níðskældinn og hvepsinn. Þau Oddný hafa líklega verið bæði orðin nokkuð roskin að aldri‚ þegar þau giftust. Bendir aldur þeirra 1762 og barna þeirra á það. Þau eru þá á Eiðum og er hann talinn 43 ára en hún 41 og börn þeirra‚ Katrín 3 ára‚ Brynjólfur 2 og Benedikt 1 árs. Fleiri börn veit ég ekki að þau hafi átt og ekki urðu fulltíða, nema þeir bræðurnir. Katrín dó ung. Sigfús Sigfússon kallar séra Grím: Grímólf, og hefir það eftir honum sjálfum, eftir sögnum. Heyrt hefi ég þær sagnir. En ástæðulaust mun það‚ enda er hann í embættisbókum öllum nefndur Grímur‚ og hefir heitið eftir Grími föðurbróður sínum.

11009

aaa Brynjólfur Grímsson, f. um 1760, bjó á Kóreksstöðum og átti Guðnýju Sigurðardóttur frá Víðivöllum 754 Einarssonar. Þ. b.: Árni‚ Sigurður, Grímur‚ Oddný‚ Eiríkur.

11010

α Árni Brynjólfsson fór í skóla‚ en hætti námi og varð einsetumaður á Hlíðarenda í Lágheiði í Tungu‚ var dável greindur‚ átti í landamerkjadeilum við nágranna sína‚ og er smáhvepsinn í skjölum um það. Dó ókv., bl.

11111

β Sigurður Brynjólfsson bjó í Hlaupandagerði og á Ekru‚ átti Hólmfríði Rafnsdóttur 6839 frá Tjarnalandi. Þ. b.:
Sigurður, Katrín‚ Oddný‚ Guðný‚ Sigurbjörg, Herborg, Hólmfríður.

11112

αα Sigurður Sigurðsson bjó á Setbergi í Fellum og átti Sesselju Bjarnadóttur 1842 frá Staffelli.

11113

ββ Katrín Sigurðardóttir átti fyrst barn við Jóhannesi syni Jóns „blábuxa“, er hét Sigurlaug. Giftist svo Ólafi „kunningja“ Ólafssyni 4434. Þau áttu einn son‚ er Benedikt hét.

11114

ααα Sigurlaug Jóhannesdóttir ólst upp á Staffelli, átti Sigfinn, son Finns frá Álftavík.

11115

βββ Benedikt Ólafsson fór til Noregs‚ kvæntist þar‚ var í Stavangri og varð efnaður, og átti fjölda barna. Hann kallaði sig Bendix Olsen.

11116

gg Oddný Sigurðardóttir ógift‚ átti barn við Pétri 7204 smið Péturssyni, Vigfús‚ sem dó ungur‚ og annað við Vigfúsi bróður hans 7206, hét Kristín.

11117

đđ Guðný Sigurðardóttir ógift‚ átti barn við Halldóri Abrahamssyni 3521, er Stefanía hét (3522).

11118

εε Sigurbjörg Sigurðardóttir átti Einar Björnsson 6927 á Kappeyri í Fáskrúðsfirði.

11119

ſſ Herborg Sigurðardóttir óg., bl., bjó með Runólfi Þorsteinssyni 9589, er lengi bjó í Litluvík.

11120

22 Hólmfríður Sigurðardóttir átti Guðmund á Staffelli 1830 Bjarnason.

11121

g Grímur Brynjólfsson bjó á Rangá móti Guðmundi Benediktssyni bræðrungi sínum‚ og á Fljótsbakka, átti I. Guðrúnu Sigurðardóttur 12553 frá Fjallsseli. Þ. b. lifðu eigi. II. Þuríði Jónsdóttur frá Stakkahlíð 1501, bjuggu á Þrándarstöðum í Borgarfirði.

11122

đ Oddný Brynjólfsdóttir átti fyrst barn við Sveini nokkrum, er Halldór hét. Giftist svo Hallgrími Árnasyni norðlenzkum, f. í Höfðasókn nyrðra um 1813. Þ. s.: Jóhann Friðrik.

11123

αα Halldór Sveinsson lærði smíði erlendis, drukknaði af skútu‚ ókv., bl.

11124

ββ Jóhann Friðrik Hallgrímsson var trésmiður, bjó ekki‚ átti Guðrúnu Björgu Eiríksdóttur 7277 frá Hafrafelli.

11125

ε Eiríkur Brynjólfsson drukknaði í Grímsá ókv., bl.

11126

bbb Benedikt Grímsson, f. um 1761, bjó á Rangá og átti hana. „Hann var smár vexti‚ þéttur maður‚ snöggur á fæti‚ skerpulegur, skýr og fljótur til máls og vel hagorður, en þótti ekki mikill búmaður“, segir Jón Sigfússon. Hann átti Ingibjörgu Guðmundsdóttur 7354 frá Ásgrímsstöðum Hallssonar. Þ. b.: Guðmundur‚ Sigurður, Sólrún‚ Þórunn. Laundóttur átti Benedikt um 1816, er Ingveldur hét‚ við Gróu.

11127

α Guðmundur Benediktsson f. um 1788, bjó á Rangá‚ heldur smár vexti‚ fjörmaður og glíminn, mesta hermikráka. Hann var fróður vel og vitmaður, vel að sér í lögum og hafði gaman af lagakrókum. En búmaður lítill. Hann átti I. Þórunni Jónsdóttur 9835 frá Klúku á Útsveit Björnssonar, og eina dóttur‚ sem dó um tvítugt. II. Sigríði Halldórsdóttur 6038, bl.

11128

β Sigurður Benediktsson bjó í Heiðarseli og átti það. Hann var í hærra lagi meðalmaður, fjörmaður mikill‚ glímumaður góður og söngmaður, búmaður lítill og laus við heimili sitt. Hann átti I. Ingibjörgu Jónsdóttur 1162 frá Bót Jónssonar. Þ. b.: Benedikt, Eiríkur, Ingibjörg, Margrét, Oddný‚ Ingibjörg. II. Guðrúnu Einarsdóttur, ekkju Hildibrands á Hofi 7322. Barnlaus.

11129

αα Benedikt Sigurðsson bjó í Heiðarseli, var heppinn læknir‚ átti Sigbjörtu Sigfúsdóttur 7635 frá Sunnudal. Am.

11130

ββ Eiríkur Sigurðsson bjó í Heiðarseli átti Ingunni Bjarnadóttur 7344 frá Kolstaðagerði. Am.

11131

gg Ingibjörg Sigurðardóttir eldri átti Jón Guðmundsson „sólargang“. Þau bjuggu ekki. Þeirra börn: Árni‚ Hallgrímur, Elízabet, Helga óg., bl., var flogaveik.

11132

ααα Árni Jónsson fór til Ameríku, átti Matthildi Pálsdóttur. Sá Páll var sonur Páls Eiríkssonar, er fæddur var í Nessókn í Aðalreykjadal um 1780, og konu hans Guðbjargar Þorkelsdóttur, er fædd var í Draflastaðasókn um 1782 (er niðursetningur þar í Grímsgerði í apríl 1785, 3 ára). Hana dreymdi hinn svo nefnda Guðbjargardraum um dreng‚ er hún missti og menn ætluðu‚ að Sigurður á Krossastöðum, sonur Sigurðar prests á Auðkúlu, hefði drepið. Páll og Guðbjörg voru í Vallanesi 1845. Börn Árna og Matthildar voru mörg efnileg og giftust vel. Voru í Dacota í Ameríku. Páll Eiríksson dó á Höfða 2/6 1860, 80 ára. Guðbjörg dó á Eyvindará 1/11 1862. Sonur þeirra var Páll bókbindari í Kverkártungu, er „Brestur“ (kynjavera) ásótti.

11133

βββ Hallgrímur Jónsson var léttúðarmaður, kallaður „harði“. Kól á fótum á yngri árum‚ kvæntist eigi‚ bjó alllengi
með Guðlaugu Jónsdóttur smiðs 28 yfirsetukonu á Hrafnabjörgum á Útsveit, Hvannstóði og Breiðuvík, en fórst ekki vel við hana. Ekki áttu þau börn saman. En 2 stúlkur átti hann áður við sömu stúlku‚ Stefaníu. Hún fór til Ameríku með aðra þeirra en hin ólst upp hjá Hallgrími og hét Guðfinna. Fyrst átti hann barn við Guðrúnu Hjörleifsdóttur 3491 Jónssonar á Nefbjarnarstöðum‚ hét Jónína. Bjuggu þau Hallgrímur þá um tíma í Seyðisfirði.

11134

+ Jónína Hallgrímsdóttir bjó með Sigurði Jónssyni „Árnesingi“ (ættfróðum), átti barn með honum. Hún dó 1926.

11135

+ Guðfinna Hallgrímsdóttir, átti Hallgrím Ólafsson, sunnlenzkan, á Seyðisfirði.

11136

ggg Elízabet Jónsdóttir, ógift‚ átti barn við Hallgrími Benediktssyni norðlenzkum. Hét Hallfríður.

11137

+ Hallfríður Hallgrímsdóttir fór til Reykjavíkur og átti Pétur Maack.

11138

đđ Margrét Sigurðardóttir átti Sigurð Oddsson frá Surtsstöðum 1308.

11139

εε Oddný Sigurðardóttir átti Jósef Erlendsson frá Streiti 3600.

11140

ſſ Ingibjörg Sigurðardóttir yngri átti Sturlu á Fljótsbakka‚ son Ófeigs í Teigaseli og Margrétar Sturludóttur. Þ. b.:
Sigríður, Am.

11141

g Sólrún Benediktsdóttir frá Rangá‚ greind vel og hagmælt‚ átti Sigfús Einarsson 11176 frá Hrafnsgerði.

11142

đ Þórunn Benediktsdóttir átti Odd Eiríksson frá Breiðavaði 3109. Bjuggu á Fljótsbakka. Áttu 1 barn og dó það ungt. Þá tóku þau til fósturs Eirík Sigurðsson, bróðurson hennar‚ og dó hún hjá honum í Heiðarseli að síðustu. Hún var vel greind og hagorð‚ en heilsuveil.

11143

ε Ingveldur Benediktsdóttir laungetin, átti Einar Vilhjálmsson á Rangá 10327.

11144

đ Magnús Bessason frá Ormarsstöðum ríka (10985) bjó á Birnufelli (d. 27/2 1855) átti I. Guðnýju dóttur Sigurðar Einarssonar á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd og Kristínar Einarsdóttur. (Hún var fædd í Svínafelli í Hornafirði 1771). Þ. b.: Helga‚ Kristbjörg, Anna‚ II. Hróðnýju systur Guðnýjar. Þ. b.: Guðný.

11145

αα Helga Magnúsdóttir átti Finn bónda á Krossi 14324 Jónssonar og Helgu Sveinbjörnsdóttur. Am.

11146

ββ Kristbjörg Magnúsdóttir átti Bjarna bónda á Fljótsbakka 1388 Andrésson. Am. Þ. son: Magnús skáldsagnahöfundur í Selkirk, Am.

11147

gg Anna Magnúsdóttir.

11148

đđ Guðný Magnúsdóttir átti Jón bónda í Fossárdal og Víðinesi Eiríksson 11425 og Snjófríðar Árnadóttur.

11149

ε Bessi Bessason frá Ormarsstöðum Árnasonar ríka (10985) bjó á Giljum allgóðu búi‚ nokkuð sérvitur, átti I. Þórunni Jónsdóttur frá Snjóholti 3152 Björnssonar. Þ. b.: Guðlaug, Ingibjörg, óg., bl., Hildur‚ Guðrún‚ Guðný. II. Kristínu Jóhannesdóttur frá Fjallseli 1605. Þ. b.: Þorkell og Benedikt, varð úti 1872.

11150

αα Guðlaug Bessadóttir átti I. Benedikt Sigfússon 11177 bónda á Birnufelli. Þ. b.: Sólrún. II. Ólaf hreppstjóra á Birnufelli Ólafsson 2022. Þ. son: Bessi. Guðlaug var gæðakona.

11151

ββ Hildur Bessadóttir átti Björn bónda á Giljum Árnason 5380. Þ. b.: Stefán.

11152

ααα Stefán Björnsson.

11153

gg Guðrún Bessadóttir átti Gunnlaug Jóhannesson 1618 í Fjallsseli.

11154

đđ Guðný Bessadóttir átti Stefán bónda í Teigaseli 208 Bjarnason. Barnlaus.

11155

εε Þorkell Bessason bjó á Giljum‚ átti Þorbjörgu Sveinsdóttur 7275 frá Hafrafelli. Am.

11156

c Erlendur Árnason frá Móbergi (10975) var fæddur um 1675. Hann bjó í Brekkugerði í Fljótsdal 1703, talinn 28 ára. Enginn maður er þar hjá honum þá‚ nema stúlka ein ung‚ er hét Guðrún Konráðsdóttir, 17 ára. Hefir hann líklega byrjað það vor einhvern búskap. Má vera‚ að hann hafi ætlað að eiga þá stúlku. Eflaust hefir hann verið mjög félítill. Ekkert er kunnugt um dvalarstað hans eftir það‚ fyrr en 1723, þá býr hann á Hofi í Fellum og einnig 1730 og 1734 og ef til vill lengur. Síðast bjó hann í Klúku í Fljótsdal, og mun hafa dáið þar 1760.

Erlendur var vel greindur og hafði gaman að lögvísi og varð allvel að sér í lögum. Hann varð því oft til þess að fylgja málum fram fyrir fátæka menn og verja þá fyrir áleitni og ofríki þeirra‚ er meira máttu sín. Var hann því af sumum kallaður „Mála-Erlendur“. Er sagt‚ að hann hafi oft átt í brösum við Þorstein sýslumann Sigurðsson (d. 1765, 87 ára). Erlendur þótti smáglettinn. En meinlítið var það og var hann vinsæll hjá alþýðu. Heldur var honum gjarnt til að glettast við Þórð bróður sinn‚ því að honum þótti hann nízkur við sig og litlu launa sér hjálpina í pokamálinu. Er ein sögn um það svo sem hér segir: Eitt sinn lýsti Erlendur því á þingi‚ að hjá sér væri mórauð ær kollótt, með réttu marki Þórðar bróður síns. En umfram það væri sitt gat á hvoru eyra. Þórður kannaðist við‚ að sig vantaði mórauða á kollótta‚ en það ættu ekki að vera göt á eyrunum. Erlendur kvað það þó áreiðanlega vera. Fór það þá ekki lengra. Næsta ár lýsti Erlendur ánni á sama hátt og enn hið þriðja árið og fór ætíð á sömu leið. Þá bar svo til síðasta sumarið, að Þórður kom á kvíar til Erlends og sá þar ána mórauðu, og þóttist þekkja. Fór hann þá að skoða markið á ánni og fann sitt mark á henni og ekkert annað. „Eg sé ekki annað en rétt mark mitt sé á ánni“, segir hann við Erlend‚ „og engin göt umfram‚ sem þú hefir verið að lýsa“. „Finnurðu þá ekki hlustargötin?“ segir Erlendur. Jú‚ það fann Þórður‚ en bjóst ekki við‚ að Erlendur væri að þinglýsa þeim sem auðkennum. Erlendur sagði‚ að hann gæti nú fengið á sína og lömb þau‚ er hún hafi átt‚ því að þau væru lifandi. En Þórður kvað bezt‚ að hann hefði þann arð‚ er hún hefði borið honum en ána sjálfa tók hann. Fleiri sögur líkar eru af Erlendi og er auðvitað ekki víst‚ hversu mikið hæft er í þeim‚ en þó munu þær ekki alveg tilhæfulausar.

Þessi sögn gekk um kvonfang hans: Á Hofi í Fellum átti að hafa búið bóndi sá‚ er Finnbogi hét. Hann átti dóttur þá‚ er Gróa hét. Erlend fýsti að fá hana fyrir konu‚ en Finnboga þótti ekki sá ráðahagur álitlegur, því að Erlendur var félítill, en Finnbogi dágóður bóndi. En Gróa var fús til ráðahagsins. Varð ekki viðráðið um hríð. Þá bar svo til eitt vetrarkvöld á Hofi‚ þá er allt fólk var háttað nema Gróa‚ sem var að snúast eitthvað fram eftir. Voru sumir sofnaðir, en foreldrar hennar þó vakandi og slökkt var ljósið í baðstofunni. Illfært hríðarveður var úti. Þá er guðað á glugga og heldur veiklulega. Foreldrar Gróu biðja hana að fara fram og gegna komumanni. Hún fer og kemur inn aftur með þá sögu‚ að það sé stúlka frá einhverjum bæ þar í grenndinni. Hafi hún ætlað að ná kindum‚ þegar veðrið versnaði, en villzt og og hefði síðan verið að villast og væri illa þrekuð og beiddist gistingar. Foreldrar hennar segja‚ að sjálfsagt sé að ljá henni húsaskjól. Segja þau henni‚ að gera henni eitthvað gott‚ hún geti mjólkað sopa úr einhverri kúnni og gefið henni volga nýmjólk‚ og látið hana síðan sofa hjá sér. Gróa gegnir því og fer fram aftur. Eru þær nokkra stund frammi. Þegar þær koma inn‚ hafa þær ekkert ljós og fara mjög hljóðlega, til þess að vekja fólk ekki. Voru foreldrar Gróu þá sofnuð. Um morguninn, þegar fólk vaknaði, er aðkomustúlkan öll á burt. Var þá komið betra veður‚ og sagði Gróa‚ að hún hefði endilega viljað rjúka af stað‚ því að fólkið heima hjá sér væri að sjálfsögðu hrætt um hana og hún vildi ekki láta fara að leita að sér‚ úr því að hún gæti komizt heim. Þótti engum það óeðlilegt.

Þegar fram liðu stundir, fór Gróa að þykkna undir belti og á sínum tíma ól hún barn og kenndi Erlendi. Hafði hann verið stúlkan, sem hýst var í hríðinni. Nú voru þau spjöll orðin á ráði Gróu‚ að Finnbogi lét afskiptalaust að Erlendur fengi hennar‚ og giftust þau síðan.

Ekki veit ég um sannindi í sögu þessari. Mamma mín heyrði söguna í æsku sinni‚ en ekki man ég‚ hvort móðir hennar sagði henni eða aðrir. En móðir hennar var dótturdóttir Erlends, minnug og fróð að þeirra tíðar hætti. Mamma kvartaði að vísu yfir því‚ að hún hefði lítt hirt um að festa í minni það‚ sem móðir sín hefði sagt um sína ætt og annarra, meðan hún var ung‚ og sá mjög eftir því þegar hún eltist. En þó mundi hún margt‚ er hún hefði sagt. Þegar hún var orðin fullorðin gerði hún sér eitt sinn ferð upp að Aðalbóli til að finna Önnu Guðmundsdóttur (1622), er þar bjó og þótti fróð og minnug. Ætlaði hún að spyrja um ætt sína. Sagði Anna henni margt‚ og er ekki ólíklegt, að borið hafi talsvert í tal um Erlend. Móðir mín og Anna voru þremenningar.

Um kvonfang Erlendar vissi mamma ekki annað en hér hefir verið sagt. Það sem hún vissi með fullri vissu var það‚ að Gróa‚ amma hennar‚ Erlendsdóttir, var dóttir Erlends Árnasonar, og að móðir hennar hét Gróa Finnbogadóttir, og vissi ekki annað en hún hefði verið kona Erlends. Um ætt Gróu vissi hún ekkert fram‚ annað en föðurnafnið. En það vissi hún‚ að Gróa átti 3 systkin, er hétu Guðrún‚ Oddur og Sigríður, og rakti ætt frá þeim (11158) og voru öll Finnbogabörn. Guðrún átti Jón Þorleifsson í Hamborg (1762), og var móðir Einars í Hrafnsgerði og Magnúsar‚ sem átti Járngerði Jónsdóttur og bjuggu síðast á Hrafnabjörgum í Hlíð. Oddur bjó á Kleif í Fljótsdal 1762 og síðar í Reyðarfirði. Sigríður var kona Kristjáns Einarssonar á Krossi í Fellum‚ móðir Einars á Setbergi. Eftir aldri‚ sem þeim er talinn í manntölum, ætti Guðrún að vera fædd um 1729, Oddur um 1731 og Sigríður um 1733. — Nú er Gróa Erlendsdóttir talin í sálnaregistri Valþjófsstaðar 44 ára‚ og ætti því að vera fædd um 1740, og eftir þessum aldri er henni síðan talinn aldur í Valþjófsstaðasókn, unz hún dó 1810, 5. maí‚ og er þá talin 68 ára‚ en ætti að vera 69 eða 70 ára. Hún er því aðeins 7 árum yngri en Sigríður á Krossi‚ sem var yngst af móðursystkinum hennar. Gróa Finnbogadóttir, móðir hennar‚ hefur því naumlega verið fædd síðar en 1720, og líklega fyrr. Hefur hún því verið langelzt af þeim systkinum, og ef til vill aðeins hálfsystir hinna.

Um framætt þessara Finnbogabarna get ég ekki sagt með vissu. Katrín‚ dóttir Jóns Árnasonar, hreppstjóra á Urriðavatni (8980), er var fróður og minnugur og talinn vel ættfróður, sagði‚ að Finnbogi faðir þeirra hefði búið á Vífilsstöðum og verið náskyldur eða návenzlaður Jóni sterka í Bót (6984). Hafði hún fróðleik sinn mest frá föður sínum og var vel minnug. En ekki vissi hún nánara um þetta. Árin 1723, 1730 og 1734 bjó Finnbogi Ásmundsson á Vífilsstöðum. Þau hin sömu ár býr Erlendur Árnason á Hofi og hefur þá verið roskinn (f. um 1675). Ef Gróa Erlendsdóttir hefur verið fædd um 1740, eins og kirkjubók Valþjófsstaða telur‚ og nokkuð væri að marka sögusögnina um það‚ hvernig Erlendur náði í Gróu‚ þá hefði Finnbogi átt aö vera kominn að Hofi fyrir 1740, enda gat það átt sér stað‚ og Gróa dóttir hans verið um tvítugt þá‚ eða rúmlega það. En nú vill svo undarlega til‚ að á Kleif í Fljótsdal býr 1762 Oddur Finnbogason, 31 árs‚ og er það Oddur bróðir Gróu eldri. Hjá honum er þá Gróa Finnbogadóttir vinnukona talin 70 ára‚ og Gróa Erlendsdóttir einnig talin vinnukona, og talin 32 ára. Ekki er nefndur skyldleiki með þeim nöfnum‚ né við Odd‚ en nöfn þeirra nafnanna benda óneitanlega á þær mæðgurnar Gróu Finnbogadóttur og Gróu Erlendsdóttur Árnasonar. En Gróa Erlendsdóttir þessi er talin 10 árum eldri en kirkjubókin telur dóttur Erlends Árnasonar. Mun því aðeins um misritun að ræða í Manntalinu 1762, því að sama mun vera Gróan. En sú Gróa Finnbogadóttir, sem nefnd er á Kleif‚ væri þá nokkuð gömul til að vera móðir hennar‚ hefði átt að vera 48 ára‚ þegar hún átti hana. Hún er einnig svo gömul‚ að hún getur ekki verið sammæðra við Odd og systur hans‚ Guðrúnu og Sigríði. Illa kæmi og sá aldur heim við söguna um Erlend og Gróu á Hofi. Hefði Erlendur verið nærri hálfsjötugur, og Gróa meira en hálffimmtug, þegar sá ástaleikur hefði átt að vera. Hann bendir þó fremur á viðskipti yngri manna. Þó gat vel verið‚ að þau hefðu lengi viljað ná saman og eigi tekizt‚ fyrr en þessi raun varð á. Í lausaleik átti Gróa Erlendsdóttir að vera getin‚ því að munnmælin hafa farið með sögu um viðskipti Erlends og Þorsteins sýslumanns út af sekt fyrir þá barneign.

Ef nú Gróa Finnbogadóttir, sem er á Kleif 1762, 70 ára‚ væri móðir Gróu Erlendsdóttur, ætti hún að finnast í manntalinu 1703. Þar finnst líka Gróa Finnbogadóttir, 11 ára gömul‚ meðal barna Sigríðar Árnadóttur á Ásgeirsstöðum, sem þá bjó þar 44 ára. Hún hafði áður verið gift Finnboga Sturlusyni, og var Gróa‚ og systkini hennar‚ sem talin eru á Ásgeirsstöðum, börn hans og hann eflaust dáinn. En Sigríður er gift aftur Hjörleifi Ásmundssyni (32 ára) og býr með honum 1703. Aldur þessarar Gróu‚ dóttur Finnboga Sturlusonar og Sigríðar, kemur að vísu alveg heim við aldur Gróu Finnbogadóttur, sem er á Kleif 1762, en þá gæti hún ekki verið systir Odds‚ Guðrúnar og Sigríðar Finnbogabarna, þar sem Finnbogi Sturluson er dálnn fyrir 1703, en þau ekki fædd fyrr en 1729—1733. Ég verð þó að telja það óyggjandi, að hún hafi verið systir þeirra‚ því að ég tel ekki hugsanlegt, að Margrét, amma mín‚ dóttir Gróu Erlendsdóttur Árnasonar, hafi ekki vitað með fullri vissu um systkini Gróu Finnbogadóttur ömmu sinnar‚ þar sem hún var talin ættfróð. Enda bjó Magnús‚ sonur Guðrúnar Finnbogadóttur, um tíma á Hrafnkelsstöðum í grennd við ömmu mína‚ og var mikill kunningsskapur á milli. Amma mín var einnig vinnukona hjá þeim eitt ár eða tvö. Lét amma mín móður mína heita í höfuðið á Járngerði konu Magnúsar.

Verið gæti‚ að Gróa á Ásgeirsstöðum sé sama konan sem Gróa Finnbogadóttir á Kleif. Eg tel víst‚ að Finnbogi Ásmundsson, sem bjó á Vífilsstöðum, sé sá Finnbogi Ásmundsson, sem býr á Sævarenda í Loðmundarfirði 1703, 34 ára hreppstjóri, og hafi hann flutzt síðar í Vífilsstaði. Kona hans‚ 1703, er Herdís Magnúsdóttir‚ 36 ára‚ og eiga þau eina dóttur‚ Þórunni, 4 ára. Herdís getur auðvitað ekki verið móðir Odds Finnbogasonar og systra hans Guðrúnar og Sigríðar, en hún gæti verið móðir Gróu‚ sem er fædd líkl. 1715—20 (Gróa dóttir hennar Erlendsdóttir, fædd um 1740). Finnbogi hefur því verið tvíkvæntur, ef Finnbogi á Vífilsstöðum og Sævarenda er sami maður. Geta má þess‚ að 1703 er húsmaður í Sævarenda í Fáskrúðsfirði að nafni Finnbogi Ásmundsson, 32 ára‚ er víst nýkvæntur Guðrúnu Gissurardóttur (aldur ókunnur). Finnbogi er eflaust bróðir Ögmundar Ásmundssonar‚ er þar býr‚ þá 33 ára‚ kvæntur Úlfheiði Gunnsteinsdóttur ( 39 ára). Þ. b.: Margrét, Guðrún 4 ára. Það gæti eins verið þessi Finnbogi, sem flutt hefði að Vífilsstöðum. Hann gæti og verið bróðir Hjörleifs á Ásgeirsstöðum. Og væri þá allt hið sama að segja um Gróu Finnbogadóttur í sambandi við þann Finnboga sem hinn. — Líklegt þykir mér‚ að Finnbogi hafi flutt sig í Vífilsstaði skömmu eftir 1703, og hafi verið bróðir Hjörleifs Ásmundssonar, seinna manns Sigríðar á Ásgeirsstöðum. Hefur þá að líkindum góður kunningsskapur verið þar á milli. Má vel vera‚ að Gróa Finnbogadóttir á Ásgeirsstöðum, stjúpdóttir Hjörleifs, hafi lent til Finnboga og verið síðan hjá honum og hann látið dóttur sína heita hennar nafni‚ og það verið Gróa Finnbogadóttir‚ móðir Gróu Erlendsdóttur Árnasonar. Gróa frá Ásgeirsstöðum hafi svo haldið í hönd með þessari alnöfnu sinni og fylgzt með henni til Erlends. Gróa‚ kona Erlends, hefur dáið um líkt leyti og Erlendur, um 1760, en gamla Gróa fylgzt með Gróu Erlendsdóttur, og þær þannig orðið saman vinnukonur hjá Oddi Finnbogasyni á Kleif 1762.

Í ómagadómi 1752 á Egilsstöðum á Völlum‚ 19. okt., er dæmdur var um Jón Finnbogason frá Ásgeirsstöðum, bróður Gróu‚ segir að hún sé „með öllu félaus‚ ómagi‚ að þeirra meiningu, hún eigi og eitt barn í ómegð“. Þetta barn gæti nú verið Gróa Erlendsdóttir Árnasonar, er hefði þá átt að vera 12 ára‚ ef hún væri fædd 1740. En það gæti ekki átt við hana‚ ef hún hefði þá verið 22 ára‚ eins og aldurinn, sem henni er talinn 1762 (32 ára), bendir til‚ að hún hefði átt að vera‚ nema hún hefði verið einhver heilsuleysingi. Nú eru Gróurnar báðar taldar „vinnukonur“ á Kleif 1762, 10 árum síðar en ómagadómurinn féll (1752), sem telur þær báðar „ómaga“. Liggur þá mjög nærri að hugsa‚ að þar sé um aðrar Gróur að ræða en Gróu‚ dóttur Erlends Árnasonar og móður hennar. En móti því mælir þó það‚ að nafnalíkingin er svo sterkur vottur‚ þar sem nöfnin eru fágæt‚ að Gróa dóttir Erlends Árnasonar ætti að finnast í manntalinu 1762, en í Fljótsdal finnst ekki önnur Gróa Erlendsdóttir en þessi. Hún gat nú að vísu verið annars staðar á Héraði þá‚ en í Fljótsdal var hennar þá helzt að vænta‚ að þær nöfnur eru einmitt hjá Oddi Finnbogasyni, móðurbróður Gróu Erlendsdóttur Árnasonar og að 1762 er Jón Jónsson frá Hákonarstöðum, er varð maður Gróu‚ vinnumaður á Egilsstöðum í Fljótsdal, næsta bæ við Kleif. En þau hafa gifzt litlu síðar‚ því að Margrét dóttir þeirra er fædd um 1766, og Arndís hefur líklega verið eldri.

Þó að ég hafi ritað langt mál um þessar tilgátur, til athugunar þeim‚ er síðar kynnu að taka eftir þessum nöfnum á Kleif og þykja eitthvað athugavert við þær‚ og þó að þessar tilgátur séu ekki ósennilegar, þá er þó einfaldast að hugsa sér‚ að aldur Gróu Finnbogadóttur á Kleif sé misritaður, eins og aldur Gróu Erlendsdóttur‚ og að eldri Gróa hafi átt að teljast t. a. m. 50 ára eða yngri‚ í stað 70 ára‚ og verið systir Odds á Kleif. En hvað sem öllum tilgátum líður‚ þá verð ég að telja það áreiðanlegt, að móðir Gróu Erlendsdóttur Árnasonar hafi verið systir Odds á Kleif og Guðrúnar og Sigríðar systra hans‚ eins og Margrét, amma mín‚ dóttir Gróu Erlendsdóttur, sagði‚ og sú Gróa Finnbogadóttir orðið kona Erlends, þó að það sé ekki með öllu víst. En mjög er líklegt, að hún hafi aðeins verið hálfsystir hinna systkinanna, því að aldursmunur hefur verið mikill milli hennar og þeirra‚ þar sem Guðrún Finnbogadóttir, sem var elzt þeirra‚ var aðeins 11 árum eldri en Gróa Erlendsdóttir.

Erlendur Árnason var jafnan félítill, og dó víst félaus. Lennti hann því stundum í skuldakröggum. Eitt sinn var hann kominn í allmikla skuld við Þorstein sýslumann Sigurðsson, minnir mig helzt‚ að það væri landskuld að einhverju leyti. Krafði Þorsteinn hann um skuldina oftar enn um sinn. Erlendur vildi borga‚ en þó varð dráttur á því. Þá leiddist Þorsteini, og reið með 2 mönnum heim til Erlendar til þess að fá útgert um skuldina. Þá hittist svo á, að Erlendur var ekki heima‚ hafði einmitt farið eitthvað út á sveitir, til þess að fá lán í skuldina við sýslumann. Fékk hann lánið‚ og þóttist góður‚ að geta nú losað sýslumann, því að hann vildi sízt standa í óbættum sökum við hann. Þegar sýslumaður hitti ekki Erlend heima‚ vildi hann þó ekki gera sér ferðina ónýta‚ en tók svarta kú‚ sem Erlendur átti‚ og markaði sér hana til lúkningar skuldinni, og hélt síðan heim. Nú kemur Erlendur heim‚ og þykir sýslumaður hafa leikið sig heldur grátt. Kallar hann nú til 2 menn og sýnir þeim mark sýslumanns á kúnni og lætur heimilisfólkið skýra fyrir þeim‚ hvernig það var til komið. Enda voru vottar þeir til‚ er Þorsteinn hafði haft með sér. Síðan tekur Erlendur kúna og slátrar henni. Hafði hann hina sömu votta við. Skar hann síðan af henni eyrun og bað vottana minnast þess‚ að þessi eyru væru af kúnni‚ sem Þorsteinn hafði markað sér í heimildarleysi. Hann kynni síðar að nota þau‚ og bað þá því gæta þess vel‚ að það væru hin sömu eyru‚ ef þeir kynnu að verða kvaddir til að segja eitthvað um þau síðar. Hann herti síðan eyrun og geymdi.

Nokkru síðar finnur Erlendur Þorstein og spyr hann‚ eftir hvaða heimild hann hafi markað sér kú sína. Verður allmikil senna úr þessu tiltæki Þorsteins milli þeirra. Lauk henni svo í það sinn‚ að Þorsteinn kvittaði skuld Erlends, en Erlendur hætti við að stefna honum að sinni‚ en lét hann vita‚ að hann teldi hann alls ekki hafa borgað Surtlu að fullu‚ þó að hann kvittaði þessa skuld‚ og geymdi sér rétt til að höfða mál síðar móti honum‚ ef sér sýndist svo. En hann skyldi láta stefnu falla niður fyrst um sinn‚ ef hann kvittaði hina umræddu skuld. Skildu þeir svo í það sinn‚ og Erlendur skilaði aftur láni því‚ er hann hafði fengið til að borga Þorsteini.

Sagt var‚ að Erlendur hefði gripið til þess við og við síðar‚ að láta Þorstein borga smáskuldir fyrir sig‚ og ef hann sýndi einhverja tregðu á því‚ hefði Erlendur dregið upp eyrun og sýnt Þorsteini og sagt: „Til eru eyrun af henni Surtlu“. Hafði Þorsteinn þá ætíð borgað.

Eitt sinn var það löngu síðar‚ er þeir voru báðir gamlir orðnir‚ að Erlendur var kominn í nokkra skuld við verzlunina á Eskifirði. Hagaði hann þá svo til ferð sinni á Eskifjörð, að hann vissi‚ að Þorsteinn sýslumaður mundi koma rétt á eftir. Þegar kaupmaður hitti Erlend‚ spurði hann brátt‚ hvort hann kæmi nú til að borga skuld sína. Erlendur kvað svo vera‚ sagði að það kæmi sauður á eftir sér‚ sem mundi kvitta skuldina. „Það má vera merkilegur sauður“, sagði kaupmaður. Litlu síðar kom Þorsteinn. Kom Erlendur þá í búðina og hitti þá þar báða‚ Þorstein og kaupmanninn. Víkur sér þá að Þorsteini og leggur hönd sína á öxl honum og segir við kaupmann: „Hér er nú kominn sauðurinn, sem ég vona að borgi skuldina“. Þorsteinn brást snöggt við og spurði‚ við hvað hann ætti með þessu. Erlendur svaraði mjög rólega: „Ó‚ það er ofur einfalt. Ég skulda hérna dálítið“, og nefnir upphæðina‚ „og vona að þér gjörið svo vel að greiða hana fyrir mig“. Þorsteinn kvaðst ekki vita til‚ að sér bæri að greiða skuldir hans. Erlendur dró þá upp úr vasa sínum eyrun af Surtlu og mælti: „Til eru enn eyrun af Surtlu“. Þorsteinn hristi höfuðið og sagði við kaupmann, að færa til sín skuld Erlends, en við Erlend sagði hann: „Guð skilji okkur nú‚ Erlendur“. Voru þetta sögð síðustu viðskipti þeirra út af eyrunum á Surtlu. Átti Erlendur að hafa dáið eigi löngu síðar.

Ekki er annað kunnugt um kvonfang Erlends en sagt hefur verið hér að framan‚ og ekki átti hann önnur börn en Gróu‚ svo að kunnugt sé.

11157

aa Gróa Erlendsdóttir átti Jón Jónsson frá Hákonarstöðum‚ bróður Þorsteins á Melum 1670, sem Melaætt er frá. Bjuggu þau á Hóli í Fljótsdal. Hún var fædd um 1740‚ dó maður hennar fyrir 1783, en hún var síðast hjá Þorsteini syni sínum á Egilsstöðum og dó þar 5. maí 1810. Gróa bjó fyrst á Hóli eftir lát manns síns og kom upp börnum sínum‚ og átti oft þröngt í búi.

Þó döfnuðu börn hennar vel og urðu þroskamenn. Síðan var hún um tíma í vinnuhjúastöðu unz hún fór til Þorsteins.

Skammstafanir

1. Mannanöfn
(í samb. við þau).

m. = maður (eiginm.) 

k. = kona (eigink.)

Stytting á nöfn, þar sem það á við í samsetningu.

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2024.