Skammstafanir

1. Mannanöfn
(í samb. við þau).

m. = maður (eiginm.) 

k. = kona (eigink.)

Stytting á nöfn, þar sem það á við í samsetningu.

2. Staða.
3. Hreppa- og héraðsskammstafanir.
4. Ýmsar skammstafanir (flestar í samsetningum).

Ættir Austfirðinga, eftir Einar Bjarnason

Hann var Austfirðingur að ætt‚ og hann hlýtur allsnemma að hafa sett sér það að marki að safna austfirzkum ættum‚ eftir því sem við varð komið‚ og má heita‚ að hann hafi náð því marki‚ eftir því sem hann í fjarlægð sinni frá miðstöð slíkra fræða‚ landsbókasafninu og þjóðskjalasafninu, hafði aðstöðu til að ná því. Hann hefur kynnt sér niðjatalasöfn hinna þriggja stórvirkustu ættfræðinga okkar‚ sem allir voru á blómaskeiði á fyrsta fjórðungi 19. aldar‚ Ólafs Snóksdalín, Jóns Espholín og Steingríms biskups Jónssonar, og orðið þess var‚ að Austurland‚ Múlasýslurnar, höfðu þar einna helst orðið útundan. Með riti því‚ sem nú birtist, hefur séra Einar bætt svo úr‚ að Austfirðingafjórðungi hafa verið gerð betri skil í bili en hinum landsfjórðungunum, og að afköstum skipar séra Einar bekk með fyrrnefndum mönnum.

Formið á ritinu „Ættir Austfirðinga“ er niðjatalsform, hið algengasta ættartöluform hér á landi‚ mjög svipað því‚ sem er á hinum fyrrnefndu niðjatölum. Höfundur byrjar á þeim manni‚ sem lengst verður rakið til‚ reynir að gera grein fyrir honum og rekur síðan niðja hans á Austurlandi. Að jafnaði slítur hann þráðinn þegar fólk flytzt að austan og heldur sér þannig innan ramma Múlasýslnanna. Niðjatölin eru ekki tæmandi um fyrri kynslóðir, enda er þess ekki von‚ er margt er gleymt og grafið‚ þótt sjálfsagt hafi höfundur reynt að ná öllu í þau um austfirzkar ættir‚ sem hann gat. Þau eru ekki heldur tæmandi um samtímafólk hans‚ og það var honum ljóst‚ að þau yrðu ekki‚ enda er vinnulagið við slík niðjatöl á þann veg‚ að þau geta tæpast orðið það. Til þeirra verður að tína og við þau verður að bæta eftir því sem vitneskja berst‚ og oft bíður höfundurinn betri gagna en hann hefur‚ áður en hann prjónar neðan við‚ þótt hann hafi á reiðum höndum einhverjar upplýsingar. Því er það‚ að þegar höfundur slíkra niðjatala fellur frá er misjafnlega langt rakið niður‚ og oft ræður tilviljun því‚ að greinilega er rakið til sumra samtímamanna hans‚ en ekki til annarra, sem höfundi voru þó vel kunnir og hann hefði rakið til ef honum hefði enzt aldur. Þess vegna má engan henda að misvirða það þótt hans eða skyldfólks hans sé ekki jafn greinilega getið sem sumra annarra í riti þessu‚ og hafa verður það í huga‚ að höfundi hefur vafalaust ekki verið jafn mikið áhugamál að geta samtíðarmanna sem að ná sem mestu af eldri kynslóðum, og hann hefur látið það sitja á hakanum að gera þeim skil í öruggri trú um það‚ að skilbetri gögn en hann hafði hjá sér væru um þá í kirkjubókum og manntölum.

Svo sem nærri má geta eru skekkjur í riti þessu‚ auðvitað töluverðu fleiri en leiðréttar verða við prentun þess. Samanburður á því við heimildir, svo sem kirkjubækur, er svo mikið verk og dýrt‚ að í það varð ekki ráðizt. Handritið kemur því almenningi fyrir sjónir með þeim leiðréttingum einum‚ sem eru við augljósar skekkjur, og eru efnislegu leiðréttingarnar að mestu leyti gerðar neðanmáls, en á stöku stað eru utanmálsgreinar í handritinu, sem að ýmsu leyti eru samhljóða meginmálinu, en þó fyllri‚ felldar inn i meginmálið, og er þess þá gætt‚ að efnið raskist ekki. Þá er orðalagi breytt sums staðar‚ svo sem vænta mátti‚ að höfundur hefði sjálfur gert‚ ef hann hefði búið handritið undir prentun, og sums staðar eru felldar niður umsagnir um fólk‚ sem höfundur hefði áreiðanlega ekki viljað að kæmi í þessari útgáfu ef hann hefði vitað að hún átti að koma nú fyrir almenningssjónir. Hinsvegar var samvizkusemi hans í fræðimennsku svo rík‚ að hann tíndi til og varðveitti umsagnir um fólk og viðurnefni á því‚ hvort sem þau voru því til hróss eða hnjóðs.

Handritið er því ekki orðrétt prentað, en efnislegur munur á því og hinu óprentaða er svo hverfandi lítill‚ að hans á hvergi að gæta.

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld. Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu. Fyrst nefnda barnið fær bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra. Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt. Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °. Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

Höfundur hefur gefið flestum mönnum í niðjatalinu númer til þess að geta vísað til þeirra er þeir voru víðar nefndir í ritinu. Nokkrir hafa þó orðið númerislausir, þeir sem bætt hefur verið inn í eftir að niðjatalið var að mestu leyti fullsamið, en þessir menn eru tiltölulega fáir‚ og kemur þetta ekki að sök.

Sjálfsagt er að reyna að gera grein fyrir heimildargildi þessa rits. Það er áreiðanlega með því marki brennt‚ sem líklega öll önnur ættfræðirit íslensk, sem nú þekkjast, að byggt er á heimildum‚ sem eru ókannaðar og ókrufnar til mergjar. Íslenzk ættfræði þarfnast þess nú mest af öllu‚ að kannaðar séu heimildir þær‚ sem til eru‚ og metið sé gildi þeirra. Svo að segja í hverju einasta riti‚ sem fjallar um ættfræði og mannfræði að meira eða minna leyti‚ og út er gefið nú‚ eru skekkjur, sem stafa af því‚ að teknar eru í þau‚ gagnrýnislaust, rakningar á ættum úr eldri ritum‚ prentuðum eða óprentuðum, sem enginn veit enn hvort rétt er að treysta.

Ekki verður þess vart‚ að sagnfræðingar eða mannfræðingar hafi gert þetta almenningi ljóst‚ þótt margir hverjir hafi auðvitað sjálfir séð það. En tími virðist kominn til að aðvara þá‚ sem við þessi fræði fást‚ og benda þeim á það‚ að það úir og grúir af skekkjum í ættfræðiritum, sem stafa ýmist af þeim orsökum, sem nú hefur verið lýst‚ eða þeim‚ að tilgátur fræðimanna um ættfærslur hafa verið settar svo fram‚ að menn taka þær sem góða og gilda vöru og byggja síðan á þeim.

Mönnum kann nú að finnast að kippt sé fótunum undan fræðum þeim‚ sem kunngerð hafa verið á undanförnum árum og öldum‚ og svo er auðvitað að nokkru leyti‚ en bezt er að horfast í augu við veruleikann og villa ekki þeim sýn‚ sem við fræði þessi fást og vilja leita hins sannasta og réttasta. Ekki má láta þessi orð valda þeim misskilningi, að söfnun fræðanna haldi ekki sínu fulla gildi. Það gerir hún auðvitað og er hinn ómetanlegi efniviður í vísindalega athugun á þeim.

Það var haft á orði við mig fyrir skömmu‚ að varhugavert væri að gefa út þetta rit án þess að það hefði verið borið saman við kirkjubækur, manntöl og aðrar aðgengilegar heimildir. Það er auðvitað rétt‚ að ákjósanlegust hefði útgáfan verið ef slíkur samanburður hefði verið gerður áður. En útgáfa ritsins hafði verið ákveðin og henni hefði sennilega ekki verið snúið aftur þótt þessi mótbára hefði verið sett fram við útgefendur. Samanburður við heimildargögn, svo sem kirkjubækur og manntöl, hefði orðið mjög dýr og seinnunninn, en jafnvel þótt samanburður hefði verið gerður við slík heimildarskjöl varð ritið ófullkomið, nema samanburður hefði einnig verið gerður við aðrar heimildir, einkum óprentuð ættfræðihandrit, en þann samanburð er þýðingarlaust að gera fyrr en könnun á gildi þeirra handrita hefur verið gerð.

Ritið „Ættir Austfirðinga“ verður því að metast á sama hátt og ættfræðihandrit önnur‚ sem eru í fórum safna okkar‚ eða réttara sagt‚ það verður að vera ómetið að svo stöddu. Þetta rit hefur sömu höfuðgallana sem hin. Því má þó bæta við‚ að þeir‚ sem þekktu séra Einar Jónsson persónulega, munu telja hann hafa verið mjög vandaðan mann til orðs og æðis og vandvirkan. Umsögn þeirra telur mönnum trú um það‚ að hann hafi unnið  ritverk sitt af alúð og samvizkusemi, enda er ýmislegt í því‚ sem bendir til þess‚ að meiri vandvirkni sé við höfð en almennt gerist. Séra Einar lifði á tímum‚ sem höfðu gagnrýni í meiri hávegum en áður var‚ og almenn þekking var á hans árum orðin allmiklu meiri en fyrr á tímum. Þessa nýtur ritið auðvitað.

Útgáfa ritsins veldur fjölda manns ánægju er það leggur fyrir augu þeirra mikil fræði‚ sem þeim hefðu annars ekki verið aðgengileg. Ritið veldur ekki meiri skaða með því í fræðum þess‚ sem rangt kann að vera‚ en önnur rit um sama efni‚ sem undanfarið hafa verið gefin út‚ og margt færir það fræðimönnum og öðrum lesendum sínum nýtt‚ sem höfundur hefur fyrstur manna rannsakað og hann á fullt lof skilið fyrir.

Að loknum þessum orðum er höfundinum þakkað fyrir það‚ að hann eyddi miklum hluta starfsorku sinnar í söfnun niðjatala þeirra‚ sem nú birtast. Hann vann þetta mikla verk í hjáverkum frá erilsömum störfum, prestsþjónustustarfi og ýmsum öðrum störfum, sem hlaðast á þá menn‚ sem af bera í sveit sinni að menntun eða manndómi, og gegndi hann þó öllu með alúð og prýði‚ auk þess sem hann rak búskap með miklum myndarbrag.

Reykjavík, 24. október 1953.

Einar Bjarnason. 

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2019.