Skammstafanir

1. Mannanöfn
(í samb. við þau).

m. = maður (eiginm.) 

k. = kona (eigink.)

Stytting á nöfn, þar sem það á við í samsetningu.

2. Staða.
3. Hreppa- og héraðsskammstafanir.
4. Ýmsar skammstafanir (flestar í samsetningum).

Ætt frá Þorláki Ívarssyni presti í Heydölum, þar í Rafnsætt og Skjöldólfsstaðaætt.

Númerin 6783—6789 vantar í handritið.

6790

Þorlákur Ívarsson var prestur í Heydölum frá því fyrir 1562 til 1590, næstur á undan Einari prófasti Sigurðssyni. Sr. Þorlákur hefur líklega verið nokkur ár fyrir 1562 aðstoðarprestur hjá sr. Konráði í Heydölum Steingrímssyni lögréttumanns í Berufirði (d. um 1535) Ísleifssonar. (Kona sr. Konráðs var Þórdís Þorsteinsdóttir. Hún átti síðar Björn Skeggjason). Þorlákur var sonur Ívars prests Markússonar á Hálsi í Hamarsfirði (d. um 1570), og Guðnýjar Hallgrímsdóttur, bónda á Egilsstöðum 13193 í Vopnafirði, Þorsteinssonar Sveinbjarnarsonar prests í Múla í Aðalreykjadal (Barna-Sveinbjarnar, d. 1490) Þórðarsonar. Sveinbjörn var hinn mikilhæfasti klerkur og var officialis frá því um 1463 til dauða síns. Móðir hans var Þórdís dóttir Finnboga hins gamla í Ási í Kelduhverfi Jónssonar langs. Sagt er‚ að síra Sveinbjörn hafi átt 50 börn með ýmsum konum‚ auk „hálfrefa“. En eigi er mikið kunnugt um þau‚ né ættir frá þeim‚ nema frá Þorsteini og Sigurði föður Helgu‚ er fylgdi Jóni biskupi Arasyni og var móðir barna hans.

Bróðir sr. Þorláks var Oddur prestur Ívarsson á Klyppstað og í Berufirði (eftir 1592), d. eftir 1595. Bróðir sr. Ívars var sr. Jón Markússon í Stöð um 1545—1558, og síðar á Þvottá 1558—c.1598.

Kona sr. Þorláks Ívarssonar var Guðrún dóttir Jóns Sigmundssonar og Geirríðar úr Öxarfirði. Þ. b.: Ívar‚ Jón‚ Snjófríður 7040, Hróðný 7881, Ingibjörg, Katrín. Guðrún var 12 ár hjá sr. Einari Sigurðssyni í Heydölum (1591—1603).

6791    

A   Ívar Þorláksson var prestur á Kolfreyjustað 1592—1608. Sonur hans hét Þorlákur.

6792    

A   Þorlákur Ívarsson  er vottur  að lögfestu  Fjarðar  í Seyðisfirði á Dvergasteini 1651. Hans synir: Jón‚ Ívar og Bessi.

6793

a Jón Þorláksson bjó á Skálanesi í Seyðisfirði, keypti það af Steingrími Oddssyni 1675, en bjó áður á Steinsnesi í Mjóafirði.

6794    

b   Ívar Þorláksson hefur víst búið á Brimnesi í Seyðisfirði og átt Guðbjörgu Árnadóttur 4709. Hún selur 28/4  1661, með samþykki Kolla Björnssonar manns síns‚ sem hefur verið s. m. hennar‚ og sona sinna Eyjólfs og Brands Ívarssona, Haga í Vopnafirði, 12 hndr., fyrir 10 hndr. í Hjartarstöðum og lausafé. Fær þá lífstíðarábúð á Brimnesi. Bjó þar með Eyjólfi, en Brandur bjó hér og hvar‚ dó 1671. Guðbjörg og Eyjólfur seldu biskupi 5 hndr. í Hjartarstöðum 1673  Ívar fyrri maður Guðbjargar var síra Ívar Haraldsson, en ekki Ívar Þorláksson. Sjá nr. 4709.

6795    

c   Bessi Þorláksson.

6796    

B   Jón Þorláksson átti dóttur þá‚ er Guðný hét.

6797    

A   Guðný Jónsdóttir átti Jón Rafnsson frá Skörðum í Reykjahverfi. Rafn var sonur Odds lögréttumanns Ásmundssonar Sturlusonar. Kona Rafns hét Ingiríður Eiríksdóttir. Jón Gunnlaugsson á Skjöldólfsstöðum telur dóttur Rafns í Skörðum Ingibjörgu konu sr. Jóns Þórðarsonar í Miklagarði og segir‚ að sonur þeirra hafi heitið Rafn og orðið lögréttumaður á Ketilsstöðum í Hlíð‚ átt Ingiríður Eiríksdóttir fyrir konu og sé af þeim komið almúgafólk‚ en ókunnugt er um það. — Jónatan á Þórðarstöðum telur síra Jón í Miklagarði son Þórðar  „tréfóts“  Péturssonar (ábóta á Munkaþverá).   Þórður sagður ættaður úr Borgarfirði, missti fótinn í stríði í Þýzkalandi, en smíðaði sér sjálfur tréfót og var fimur á honum. Jónatan segir síra Jón hafa orðið prest í Miklagarði 1589 og hafa átt Ingibjörgu dóttur Rafns í Bjarnastaðahlíð, Oddssonar,  Ásmundssonar  Sturlusonar  á  Staðarfelli. Þ. s. Rafn lögrm. á Ketilsstöðum. Átti Ingiríði og af þeim almúgafólk. — Þessi Rafn hefur þá búið á Ketilsstöðum á undan hinum alkunna Rafn Jónssyni á Ketilsstöðum frænda sínum‚ og hefur líklega lifað stutt‚ eða fluttu burtu.

Börn Jóns frá Skörðum og Guðnýjar Jónsdóttur Þorlákssonar voru: Rafn‚ Ólafur 6862, Ingiríður 6863, Ingveldur 6876, Ásný 6877, Sólveig 6878, Herdís 6983. Þennan Rafn nefnir Jón á Skjöldólfsstöðum ekki lögréttumann.

6798

a Rafn Jónsson bjó á Ketilsstöðum í Hlíð og var mikill fyrir sér og stórbokki, Hann átti í deilum við Ólaf prófast Einarsson á Kirkjubæ 5915 og kærði prófastur framferði hans fyrir höfuðsmanni, og setti kviðling þennan neðan á bréfið:

Rifbalda þessum rið þú burt
með rótum sínum öllum‚
svo enginn fái upp hann spurt
á víðlendi né fjöllum,
auðmjúkan planta í hans stað‚ 
sem elskar friðinn mæta 
og sambúð sæta.
Sér það fólkið‚ og þá mun það
þinna boðorða gæta.

Sagt er‚ að höfuðsmaður hafi leyft prófasti að taka Rafn og setja hann í varðhald, en þá hafi Stefán‚ sonur prófasts, er síðar varð prófastur í Vallanesi, komizt að því‚ hvað í bruggi var. Þeir Rafn voru vinir‚ og gerði Stefán hann varan við og ritaði honum þá‚ meðal annars‚ stöku þessa:

Nú vill ekki standa um stafn
stöðugan vin að fanga. Þótt
allir beinist að þér‚ Rafn‚
undan skal ég ganga.

Fyrir aðvörun þessa komst Rafn undan og fékk prófastur aldrei fang á honum. Rafn er lögréttumaður 1660.

Kona Rafns var Þórlaug Jónsdóttir 8392 frá Daðastöðum. Þ. b.: Jón‚ Pétur 6843, Eiríkur 6847, Magnús 6857, Sesselja 6858, Guðný‚ Guðríður, Guðrún. — Rafn dó eftir 1660. Það ár‚ 19. des., byggir Brynjólfur biskup Jóni og Eiríki sonum hans Ketilsstaði þegar Rafn deyi eða flytji burt. Rafn vildi flytja bæinn. Þeir búa þar báðir 1669.

Margt manna er frá þeim komið‚ en eigi er kunnugt nema um sum þau systkin. Það sem komið er frá Rafni og Jóni Rafnssyni í Sleðbrjótsseli, systursyni hans‚ er hingað til hefur verið álitinn sonur hans‚ var kölluð Rafnsætt.

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2019.