Séra Einar Jónsson

Einar Jónsson, prófasturEinar prófastur JónssonÞað þykir hlíða‚ að í riti þessu‚ sem nú birtist almenningi í fyrsta sinni‚ og þó aðeins byrjun þess‚ en þó fyrir alllöngu síðan var til fulls samið‚ sé að nokkru minnst höfundarins, enda fer hér saman‚ að hafin er útgáfa á verki þessu og höfundurinn á 100 ára afmæli á þessu ári.

Í Tímariti Þjóðvinafélagsins, Andvara, hefur sá háttur verið hafður á, að minnast þar árlega eins manns‚ sem með réttu bæri nafnið þjóðvinur, og þó ekki fyrr en ævi þeirra væri öll. Á þennan hátt fékk séra Einar þá ótvíræðu viðurkenningu að vera þjóðvinur, því í Andvara 60. árg. birtist ævisaga hans‚ svo sem annarra þjóðvina, er þar hafa komizt á skrá. Það má því spara mikinn hlut þessarar ágætu ævisögu í þessu riti‚ en vísa til þess sem sagt er í Andvara, og mun þó lengi mega í auka‚ svo ævisaga þessa manns verði bæði fullrituð um viðburði, þar sem hann kom nærri og fullskilgreint um persónulega gjörð og afrek þessa manns‚ en nokkuð bætir það um‚ að hér tala verkin‚ og þó fremst sagn- og ættfræðirit þetta‚ sem ekki á sína hliðstæðu um fræðilega gjörð í ættfræði landsins, og einkum hvað snertir alþýðulífið í þeim landshluta, sem það fyrst og fremst nær yfir‚ Múlasýslurnar. Verður af öðrum gjörð nokkur grein fyrir gildi þess‚ gerð og útgáfu. Það eitt má hér segja‚ að þeir sem þekktu til þess‚ í hverju þessi maður hafði‚ eins og sagt er‚ „að snúast“ um ævina‚ mega undrast það eigi lítið‚ að slíkt verk skuli eftir hann liggja‚ án þess að þeir yrðu þess verulega varir‚ að í þessu var hann „að snúast“, eins og hann sjálfur segir í formála þessa rits‚ frá ungum aldri. Segir hann skemmtilega frá hinu fyrsta atviki‚ er varð til þess‚ að hann fór „að snúast“ í því‚ sem varð að því stórvirki, sem rit þetta er. Hann er 13 ára gamall að lesa Árbækur Esphólins fyrir fólkið. Móðir hans sneri honum við til þess að lesa aftur ættina Árna auðga á Arnheiðarstöðum, því „það er ættin okkar“ sagði hún. Mætti leiða hug að því‚ að sú saga gæti endurtekist, og oftar en einu sinni‚ er þetta rit verður lesið af gáfuðum unglingum, sem hafa hæfileika og hvatir til fræðiiðkana í sögu þjóðarinnar. Eins og rit þetta ber með sér‚ er séra Einar fæddur á StóraSteinsvaði í Hjaltastaðaþinghá 7. des. 1853. Er í ritinu‚ og einkum í þessu fyrsta bindi‚ gjörð allrækileg skil á ætt hans‚ og þó hún standi víða rótum i sögu Austurlands, kaus hann að gjöra skil á henni í ritinu meðal afkomenda Þorsteins jökuls‚ en hann var einn á ættgrein hans. Það var móðir hans‚ sem í móðurætt var komin af þessari ættgrein, og það er engin tilviljun, að þarna taldi hann sig ríkast úr ættum runninn, því bæði var það‚ að hann missti föður sinn ungur‚ og ólst upp með móður sinni‚ og þau áttu svo margt‚ og enda flest‚ sameiginlegt. Hún var skörungur að allri gerð og skynsemdarkona, en hann bar fljótt af ungum mönnum að allri gerð‚ sagði gamalt fólk‚ er þetta þekkti. Slitu þau og aldrei samvistir, en honum auðnaðist að vera henni skjól og skjöldur í aldurdómi, og taldi hann sér það mikið lán vera. Dóu börn hennar ýmist í bernsku eða á ungum aldri‚ mörg að tölu‚ en þau mæðginin stóðu snemma ein uppi af þessari stóru fjölskyldu, og síðan langa stund saman‚ og voru fagurt vitni ræktarsemi og mannkosta. Annars stóðu ættgreinar hans víða um Austurland, en ríkust af þeim er Njarðvíkurættin, sem komin var af HákarlaBjarna, sem rit þetta byrjar á, en var lengra fram af Eiðamönnum, en þaðan til Hofverja í Vopnafirði, en þeirra fyrstur var Þorsteinn hvíti landnámsmaður á Hofi. Hann var einnig af Kolbeinsættinni frá Hvanná‚ sem talið er að þar hafi búið í 300 ár‚ og er eflaust hrein austfirsk ætt‚ þótt eigi sé nú vitað hvar hún á rætur í ættarrunni. Af aðfluttum ættum‚ sem hann var kominn af‚ má nefna Svalbarðsætt frá Jóni Magnússyni, því Erlendur, föðurbróðir Árna auðga‚ sem var forfaðir hans‚ var frá Móbergi í Langadal, Árnason, Þorleifssonar, Jónssonar lögmanns á Reynistað, Sigurðssonar sýslumanns s. st., Jónssonar frá Svalbarði. Þorsteinn Jökull er að vísu talinn bróðir Jóns á Svalbarði, svo hér er sama ættin‚ en eigi mun það öruggt vera. Hann var einnig afkomandi Jóhanns þýska‚ greifans af Rantzau, sem bjó á Egilsstöðum í Vopnafirði á fyrra hluta 17. aldar. Þarf eigi þetta að þylja hér‚ en það er víst‚ að þessar ættir‚ sem hér eru taldar‚ voru hinar mikilhæfustu ættir‚ og svo var séra Einar að allri gerð‚ allt hafði hann sókt hið bezta til sinna forfeðra.

Það var í Andvara, sem séra Einar ritaði æviminningu eins þjóðvinarins, séra Halldórs prófasts Jónssonar á Hofi. Hann byrjar á því að segja það‚ að æviferill séra Halldórs sé eitt bezta dæmi um kristilega mannúð‚ sem saga Íslands á til. Þá var séra Einar ungur‚ er hann ritaði þetta. En þeir‚ sem þetta lesa‚ og vita síðan ævisögu séra Einars sjálfs‚ finnst‚ að eigi yrði nær því farið í fáum orðum að lýsa henni‚ en með þessum einföldu og sönnu orðum hans sjálfs um Halldór prófast Jónsson. Kristileg mannúð, eða kannske öðruvísi sagt: mannúð Krists‚ var svo einkennandi um allt líf og framgöngu séra Einars‚ að saga Íslands mun ekki eiga mörg sannari dæmi um þennan merkilega heimssögulega hlut‚ en æviferil séra Einars Jónssonar. Um þetta bera allir vitni‚ sem voru svo lánsamir að kynnast þessum manni‚ og yrði seint að telja fram dæmi‚ þó af nógu sé að taka‚ er þetta sannar. Má minna á það‚ sem bókfest er‚ en þess getur Jón frá Sleðbrjót i minningum um Þorstein Erlingsson, að þá er bruninn mikli varð á Kirkjubæ, 7. okt. 1897, var séra Einar staddur á Seyðisfirði, og ætlaði að vátryggja nýsmíðað íbúðarhús á Kirkjubæ, en þá komu menn yfir fjall‚ er sögðu að stórbruni hefði orðið í Tungunni í átt af Kirkjubæ, en þeir sáu af fjallinu. Eigi varð þó vitað‚ að það væri þar‚ en séra Einar hætti við að vátryggja unz vitað yrði hvar bruninn varð. Væri þá betur margt‚ ef slíkt hóglæti um heiðarleikann væri hvers manns einkunn. En slíka einkunn átti séra Einar í hverjum hlut.

En þrátt fyrir alla sína óskeikulu kristilegu mannúð‚ var séra Einar skapríkur og víkingslundin var honum í blóð borin. Hann vildi jafnan hafa það í ævisögum manna‚ sem mark var að um mannskapinn, og dáði trúmennskuna og fórnarlundina meira en flest annað. Hann var afrenndur maður að afli‚ og þótti þær sögur góðar‚ sem um slíkt gátu.

Móðursysturdóttir hans hafði drukknað í Lambadalsá á Gilsárdal‚ en þar lá aðalvegur lestaferðanna af ÚtHéraði til Seyðisfjarðar. Kennt var um ólánskletti, er stóð í ánni‚ nærri eða við vaðið‚ og hafði hann fengið að standa þarna óáreittur frá upphafi. Séra Einar átti þarna ferð um veginn. Réðst hann að klettinum og velti honum af stalli‚ en þeir sem sáu‚ töldu að eigi mundi fýsilegt að fljúga á séra Einar að fyrra bragði‚ enda er ævisaga hans alveg laus við áflog. Eftir það hélt séra Einar áfram ferð sinni. En er ekki eins og manni heyrist Skallagrímur kveða eftir að hafa hroðið skip Snarfara:

Nú's hersis hefnd
við hilmi efnd.

Eða Svipdag í höll Hrólfs kraka segja‚ er hann sendi hnútuna í hirðmanninn:

„Til þess gerði hann‚ sem hann fékk fyrir“. Mestu mun hér þó hafa ráðið hin kristilega mannúð að bæta þar um veginn‚ sem válegt hafði orðið‚ svo óhultir færu þeir‚ sem eftir koma. Eitt er víst. Hér er því slungið saman‚ sem gert hefur ríkustu einkenni Íslendingsins, gert Íslendinginn að afreksmanni, svo að aldrei hefur þurft að efast um það hvað fælist í hugtakinu Íslendingur, og aldrei getur við hann skilið. Öruggur til áræðis við hvað sem hefur verið að etja‚ sjálfskyldugur til líknsemdar, hefur verið sú einkunn Íslendingsins, sem fleytt hefur þjóðinni yfir hinar miklu torfærur aldanna. Þetta var einkunn séra Einars í lífi hans meðal samtíðar hans. Séra Einari var allra manna langminnugast á það‚ sem honum hafði verið til þægðar gert og þóttist aldrei hafa að fullu launað. — Þegar brann á Kirkjubæ, og hann var fjarri‚ var það einn vinnumaður hans‚ sem best gekk fram í að bjarga. Hirti hann ekki um dót sitt og brann það allt. Sagði hann‚ að dótið sitt mætti líklega fara til „helvítis“ ef hægt væri að bjarga bókunum prestsins. Fyrir þetta fóstraði séra Einar dóttur hans upp og kom vel til manns.

Séra Einar kom að Hofi í Vopnafirði vorið 1912. Ég var þá unglingur á Egilsstöðum og hafði engin kynni af honum haft. Um sumarið var ég sendur út í kaupstað og fór sem leið lá út og ofan Refstaðarnesið. Sé ég þá að maður ríður ofan Ásbrandsstaðanesið og stefnir að Hofsá. Ég þóttist strax vita hver vera mundi og kærði mig ekkert um að fundum bæri saman‚ og hægði á ferð minni. En maðurinn kom að ánni við Svínabakkahylinn og leggur þar út í. Ég hrópaði á hann og hvatti nú ferðina‚ og varð ekki hjá því komizt að fundum bæri saman. Reið ég svo að vaðinu og lögðum við samtímis út í ána og mættumst í miðri ánni. Áttum við þar lítið tal saman og fór hvor sína leið. Þessa lítilfjörlega atviks lét séra Einar mig njóta alla stund síðan. Ég var staddur á Hofi vorið 1920, inni í stofu hjá séra Einari. Harðindi höfðu þá gengið vetur allan‚ og var hart á dalnum um bjargæðið og enn hríðar. Skip lá inni á Vopnafirði og hafði vörur að flytja. Bóndi einn hringir þá frá Vopnafirði til séra Einars og biður hann að hjálpa sér um 4 poka af rúgmjölí. Séra Einar stóð við símann. „Já. Ég er svo heppinn að geta það. Elskan hann Fúsi minn sendi mér 20 poka af rúgmjöli með skipinu“. Þannig mætti lengi telja dæmin um það hversu það var örugg einkunn séra Einars að hjálpa og líkna‚ hver sem i hlut átti og hvernig sem á stóð.

Séra Einar var mikill búmaður og bjó fallega. Hann hafði yndi af því að ræða um búskap við bændur‚ og hann bjó sjálfur yfir mikilli þekkingu og reynslu í búskap. Hann leit eftir starfi vinnumanna sinna og leiðbeindi þeim um meðferð fóðurs og gripa og vandaði um umgengni. Eitt sinn kom hann í fjárhúshlöðu að enduðum gegningum. Vinnumaður hafði leyst hey‚ sem hann ætlaði að gefa að morgni‚ og gerði þetta til að flýta fyrir sér morguninn eftir. Séra Einar leit á bynginn og spurði hvernig á honum stæði‚ en vinnumaður sagði eins og var. „Það má aldrei,“ sagði séra Einar. „Heyið skemmist á því að liggja laust‚ þegar loftið leikur um það‚ og gerðu það aldrei“. Hann sóktist eftir því að eiga góða gripi‚ enda var bú hans á Hofi mikið og fallegt, og gagnsamt eftir því. Var honum og vel til hjóna‚ og þótti öllum gott með honum að dvelja og njóta hans fyrirsagnar.

Má til þess ef til vill rekja það‚ að það var eins og sjálfgefið að séra Einar kenndi. Hann var einhvernveginn svo fróðlegur í allri snertingu við menn að þess áttu allir von‚ að það væri fræðsla í einhverri mynd að njóta návistar hans. Var þetta og reynsla og afspurn, svo menn voru betur við því búnir að njóta þess‚ sem hann hafði að segja. Kom það fljótt á daginn að menn sóttu eftir kennslu hjá séra Einari‚ og var það snemma á prestsárum hans‚ sem hann fór að kenna piltum undir skóla. Fór mikið orð af því og sóttu margir eftir‚ en frægast hefur það orðið í sögum‚ er Guðmundur Finnbogason kom til hans norðan úr Þingeyjarsýslu og bað hann að kenna sér. Sagðist hann ætla að verða rithöfundur, en það var óðs manns æði á Íslandi þá. Eigi að síður kenndi séra Einar honum‚ og seinna tileinkaði G. F. honum eina af merkisbókum sínum‚ en líklega á séra Einar jafnt í þeim öllum‚ og mundi G. F. það sízt undan hafa dregið. Kennslustarfið var séra Einari kært‚ og kannske mest af þeim sökum‚ að það var hjálparstarf, úrræði‚ kannske, það eina‚ sem um gat verið að ræða‚ og hjálp til handa G. F. er þjóðinni orðin dýrmæt. Mætti þar og skyggnast um víðari vang‚ en mundi allt seint séð. Vita allir að hér er um tímafrekt starf að ræða og þegar svo er litið í ævisögu hans í Andvara, og talin upp þingstörf, kaupfélagsstörf, oddvitastörf og flest allt það‚ sem snertir opinbert starf í hverri sveitinni eftir aðra‚ fyrir utan margs konar persónulega fyrirgreiðslu og ráðhollustu við meðbræður sína‚ þá er ekki að undra‚ þó mönnum sýnist þetta verk mikið vera‚ og næsta furðulegt að það skuli koma innan úr fylgsnum þeirra ævisögu er svo mikil var á mörgum sviðum. Munu íslenzk fræði seint fá það fullþakkað og seinast um það gleymast í ævisögu hans‚ og ekki fyrr en Íslendingar þurfa ekkert að muna. Verða þessi orð ekki höfð fleiri‚ en ef það auðnast að koma öllu þessu verki á prent verður sögð sú saga‚ sem af þeirri framkvæmd er orðin‚ og verður‚ um það er líkur.

BENEDIKT GÍSLASON frá Hofteigi.

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2019.