Um ritið „Ættir Austfirðinga“, aðdraganda þess og tilhögun.

Þá er ég var 13 ára‚ veturinn 1867—1868, náði ég í Árbækur Espólíns að láni og las þær allar fyrir fólkinu, þar sem ég átti heima‚ og hirti þá lítið um ættartölurnar í þeim‚ og fór fljótt yfir þær‚ þangað til ég var kominn í 10. deild þeirra‚ þar sem getið er Árna hins ríka á Arnheiðarstöðum, Þórðarsonar, Árnasonar á Móbergi Þorleifssonar, Jónssonar lögmanns á Reynistað, Sigurðarsonar. Ég stiklaði fljótlega yfir þessa þulu‚ en mamma mín tók fram í og bað mig að lesa þetta aftur. Ég gerði það auðvitað. Þá segir hún: „Þetta er ættin okkar“. Hún vissi að Þórður faðir Árna var bróðir Erlends, föður Gróu‚ móður Margrétar, móður hennar. Þá vaknaði forvitnin hjá mér um ætt mína‚ og fór ég að rekja hana og tókst að rekja hana gegnum Árbækurnar, Sturlungu og aðrar sögur‚ eftir því sem ég náði til‚ fram um alla fornöld, og ritaði þann vísdóm minn í kver 1868, sem ég á enn til. Ég fór einnig að grenslast eftir ætt minni í öðrum liðum‚ en varð lítið ágengt um það‚ þó gat mamma mín sagt mér margt um það og svo fleiri ættir.

Þegar ég kom í latínuskólann 1870, fór ég til Jóns yfirdómara Péturssonar og spurði hann um ætt mína. Ég fékk ýmislegt að vita hjá honum og var hann mér mjög alúðlegur, og lofaði mér að leita í bókum sínum og skrifa upp úr þeim. En skammt komst ég þó með flesta liði í ætt minni. Ég komst bráðlega að því‚ að Austfirðir voru mjög afskiptir í hinum almennu ættatölum. Var þar lítið getið um annara ættir eystra‚ en embættismanna. Um bændaættir eystra var þar sáralítið að hafa. Enda gat Jón aldrei um ættatölubók Jóns stúdents Gunnlaugss. á Skjöldólfsstöðum, frá 1684, sem hann þó átti. Þar var heldur ekki mikið sérstaklega að græða um mína ætt. Og þar voru lítið raktar bændaættir. 

Jafnhliða vaknaði snemma hjá mér forvitni um ættir annara en sjálfs mín‚ og ýmsir fóru að spyrja mig um skyldleika við mig‚ sem þeim var óljós‚ en vissu þó‚ að átti sér stað. Og aðrir urðu jafnvel til þess að biðja mig að grafa upp sína ætt‚ svo sem séra Magnús Bergsson á Kirkjubæ og frú Ragnheiður seinni kona hans‚ veturinn áður en ég var fermdur.

Þegar ég var kominn í skóla var ég eystra á sumrum og vann að heyskap, fór ég þá ætíð að finna Jón Sigurðsson í Njarðvík, fróðan mann og ágætan og skrifaði ýmislegt upp eftir honum um austfirzkar ættir‚ sem hann mundi og hafði mest eftir Hjörleifi sterka á Nesi. Einstaka gamla menn aðra hitti ég‚ sem gátu frætt mig um eitt og annað. Væri mér með engu móti unnt að rekja það‚ hvað mér græddist á þann hátt.

Tvennt var það‚ sem ég taldi mér mestan feng í um almennar ættir eystra á þeim árum. Annað voru blöð nokkur‚ sem séra Einar Hjörleifsson í Vallanesi gaf mér 1871. Hafði hann fengið þau eftir Stefán Bóasson, fróðleiksgjarnan mann‚ er dó hjá honum í Vallanesi. Voru þau rituð skömmu fyrir 1800 af einhverjum fróðum manni. Þar var rakin ætt frá séra Sigfúsi Tómassyni í Hofteigi og Járngerði á Sleðbrjót, systur Ásmundar blinda á Hrafnabjörgum í Hlíð (Hlíðarætt). Annað var ættasafn Jóns Sigfússonar, bónda á Ketilsstöðum á Völlum og síðar í Eskifirði. Það var talsvert safn af alls konar ættum eystra. Ég fékk það lánað hjá Snorra dýralækni í Reykjavík, mági hans‚ 1872 eða 1873, og skrifaði það allt upp þegar. Hef ég haft hið mesta gagn af því. En það var mjög sundurlaust og óljóst og því miður margt í því óáreiðanlegt, eins og ég sá smátt og smátt‚ og hef ég orðið að nota það með mestu gætni og samanburði við önnur gögn‚ þar sem hægt hefur verið.

Eftir það varð sú hugsun föst hjá mér að reyna að semja ættir Austfirðinga yfirleitt, eftir því sem ég gæti við komið‚ og gera það‚ sem unnt yrði‚ til að koma Austfjörðum nokkuð jafnhliða öðrum landsfjórðungum, að því er ættfræði snerti.

En ég átti mjög óhægt aðstöðu á skólaárum mínum‚ þar sem ég varð að vinna fyrir mér á sumrum; og stunda nám að vetrinum. Ég gat því ekki ferðast um á sumrin‚ til að finna gamla fróða menn‚ þótt einhverjir hefðu verið‚ ef þeir áttu heima langt frá mér. Þó fór ég að finna Sigurð prófast Gunnarsson á Hallormsstað og fékk Gunnarsættina hjá honum‚ og gamla konu hitti ég í Breiðdal, sem gat sagt mér margt.

Þegar ég svo varð prestur 31. ág. 1879, varð ég það í Sléttuhlíð í Skagafirði og síðan í Miklabæ og var því 10½ ár fjærri Austfjörðum. Heimildir varð mér erfitt að ná í. En samt náði ég ýmsum afskriftum af sálnaregistum kirkna og svo af manntölunum 1816, með fæðingarstöðum manna‚ sem ýmsir prestar rituðu upp fyrir mig. En þetta voru aðeins fá manntöl, sem ég gat þannig náð í. Þó vann ég talsvert að því meðan ég var í Skagafirði, að tengja saman það sem ég náði í og náði einnig í ýmislegt með bréfaskriftum. Eftir að ég kom að Kirkjubæ 1889, átti ég hægra með að ná í ýms gögn. Eftir það fékk ég að sjá hér syðra ættartölubók Jóns á Skjöldólfsstöðum og ritaði úr henni það sem ég girntist, og kom mér vel ýmislegur fróðleikur þaðan‚ sem ekki var annars staðar að fá.

Meðan ég sat á þingi‚ gat ég stundum gætt að ýmsu í söfnum hér‚ þó að lítill tími væri til þess. Afskriftir ýmsar gat ég síðan fengið héðan. Naut ég við það góðfúsrar hjálpar Dr. Jóns Þorkelssonar og Einars bróður hans‚ Pétur Zophoníassonar og Dr. Hannesar Þorsteinssonar o. fl. Síðast náði ég 1919 í afskrift af manntalinu 1703 frá Kaupmannahöfn, milli Skeiðarár og Jökulsár í Öxarfirði með Mývatnssveit. Auk þess hef ég fengið mjög margar upplýsingar um ættir hjá Dr. Hannesi Þorsteinssyni; hefur hann reynzt mér hinn tryggasti og þrautbezti í því að gegna spurningum mínum‚ eftir því sem hægt hefur verið. Ég vann síðan jafnóðum úr því sem mér barst. En vinna sú var auðvitað slitrótt mjög‚ því að alla stund varð ég að hafa þetta starf í algerðum hjáverkum, með því að önnur störf urðu að sitja fyrir‚ og lenti mörg næturstund í það.

Loks var safn mitt orðið talsvert mikið‚ en mjög sundurslitið og óaðgengilegt fyrir aðra en mig. Fór ég þá að semja reglulega ættartölubók úr því veturinn 1917—1918 og hef haldið því áfram síðan‚ þangað til ég lauk hinum eiginlegu austfirzku ættum í fyrra vor. En það hefur einnig orðið að vera í hjáverkum og langir tímar liðið stundum svo‚ að ég hef ekki getað snert á því verki. Veturinn 1924—1925 var ég hér í Reykjavík og leitaði í Landsbókasafninu og Landsskjalasafninu, og fann allmargt, er mér þótti mikilsvert, sérstaklega í bréfabókum Brynjólfs biskups. Nú á ég aðeins eftir að rita nokkrar ættir‚ er snerta Austurskaftafellssýslu og Reykjahlíðarætt hina eldri í Mývatnssveit; en ýmsir af henni hafa flutzt austur‚ og aukið þar kyn sitt.

Rit þetta‚ það‚ sem ég hef lagt mesta áherzlu á, hefur verið það‚ að koma  — Ættir Austfirðinga, — nær aðallega yfir Múlasýslur‚ Langanes og Þistilfjörð og nokkuð um Sléttu og Öxarfjörð og einnig að nokkru um Austurskaftafellssýslu, og er orðið 2000 síður í stóru 4 blaða broti.

Það sem ég hef lagt mesta áherslu á, hefur verið að koma ættum þeirra Austfirðinga, er lifað hafa samtíða mér‚ sérstaklega bændaættunum, í samband við hinar eldri og almennu ættir‚ svo að hægt yrði að rekja þær sem víðast til fornmanna. En það hefur auðvitað verið verst viðureignar, því að heimildir eru svo fáar og ófullkomnar og dreifðar. Þó hygg ég‚ að þeir menn séu nú fáir af austfirzkum ættum‚ er eigi megi rekja ætt þeirra í einhverri grein til fyrri alda eftir þessum ættartölum. Þar sem ég hef strandað með einhvern ættlið hef ég reynt að skilja svo við hann með ártölum, aldri og ýmsum skýringum, að þeim‚ sem vildu halda áfram þeim rannsóknum, mætti verða það hægra.

Aftur hef ég hirt minna um‚ að rekja vandlega ættir manna frá síðustu öld‚ niður á við‚ því að til þess eru gögn í kirkjubókum og því allt hægra þar aðgerðar jafnvel fyrir þá er koma ókunnir að.

Til þess að lengja ritið ekki um of og til þess að flýta fyrir mér‚ hef ég óvíða rakið ættirnar beint til fornmanna, því að ég ætlast til‚ að hver ættfróður maður geti haldið áfram þar sem ég hætti. En ég hef ætlað mér‚ að rekja þær ættir fram til fornmanna í sérstökum þætti aftan við safnið‚ ef mér entist aldur til og tengja svo saman‚ að hver gæti rakið ætt sína alla leið til landnámsmanna og jafnvel lengra‚ ef hann langaði til.

Um tilhögun ritsins er það að segja‚ að ég hef tekið einhvern merkan ættföður (og svo hvern af öðrum), og rakið frá honum afkvæmi hans gegnum aldirnar niður um 1900 og víða getið nokkurra æviatriða merkra manna; þó ekki eins og ég hefði viljað‚ því að ég hef verið svo hræddur við tímaskortinn. Þá hef ég aðeins rakið þær greinar afkvæmis hans‚ er staðnæmst hafa í Austfjörðum, en þó oft bent á aðrar greinar, er eitthvað hafa lent annað og merkar hafa reynst‚ Ættfeðurna hef ég tekið aðallega eftir tímaröð, en ýmsir eru samtíða uppi‚ og er þá ekki farið neitt nákvæmt út í tímatalið. Öll systkin eru fyrst talin upp saman‚ og síðan tekin fyrir hvert eftir annað undir sameiginlegum merkjum, t. a. m. A, B, C; eða a, b, c; eða aa‚ bb‚ cc; t, t, t; tt‚ tt‚ tt‚ o. s. frv. Ég hef einnig notað gríska stafi til þess: α , β, γ, αα‚ ββ‚ γγ‚ o. s.frv. En sé eftir því, af því að almenningur þekkir þá ekki‚ og hefði heldur átt að nota önnur merki. En ég hef hugsað mér‚ að gera grein fyrir því í eftirmála við ritið (með fleiru), svo að ekki kæmi að sök. Annars hefði verið æskilegast, að systkinamerkjum yrðri svo fyrir komið‚ að hvert merki benti á tímann þegar maðurinn lifði‚ t. d. að systkini sem lifað hefðu um 1600 væru merkt með a, b, c, o. s. frv., næsti liður sem lifði um 1630—4 með aa‚ bb‚ cc‚ o. s. frv., svo að sjá mætti ætíð um hvert leyti sá og sá maður hefði lifað af merki því‚ er við hann stæði. Þessu hefur enginn gaumur verið gefinn hingað til í ættatölum vorum‚ þó að systkinamerki hafi verið notuð. Ég hef heldur ekki gætt þess nægilega, sízt í fyrri hluta ritsins, en í síðari hlutanum hef ég gætt þess meira og meira. En aldrei getur það þó orðið nákvæmt, sakir miseldris systkina. Þó mætti fara nokkuð nærri um það.

Ég hef sett tölumerki við hvern mann‚ sem sérstök grein er um‚ og eru þeir töluliðir orðnir í safninu 13.976. í rauninni eru liðirnir orðnir miklu fleiri‚ því að við þekkingu er síðar fékkst hef ég orðið að bæta inn börnum og jafnvel barnabörnum manns með smáu letri undir þeirri liðatölu, sem stendur við manninn sjálfan. Þessir töluliðir standa framan við nafn manns með systkinamerki hans‚ og stendur talan utanstryks til vinstri, en systkinamerkið innanstryks hjá mannsnafninu. Nú er talin kona mannsins og venjulega ættfærð lítils háttar; en út undan nafni hennar stendur tala utanstryks til hægri. Sú tala sýnir hvar hana er að finna í ritinu‚ ef maður vill rekja ætt hennar. Þannig stendur t. d. við töluna 2078 (utan stryks) innan styrks: ++ Jón Stefánsson, f. 1851 í Glúmsstaðaseli, bjó á Gilsárvelli góðu búi‚ átti Stefaníu Ólafsdóttur, bónda á Gilsárvelli, myndarhjón. Jón dó í Höfn hjá dóttur sinni 12.3. 1926. — Út undan nafni Stefaníu stendur utanstryks talan 9711. Við þá tölu stendur nafn Stefaníu í hennar ætt. Vilji maður rekja hennar ætt‚ þá er að leita þess þar. Þessi tilhögun hefur eigi verið áður höfð í ættatölum vorum. Það hefur verið venja að vísa aðeins á blaðsíðu, en það er seinlegra að finna mann á þann hátt.

Þegar um fleiri börn eins manns er að ræða en eitt‚ þá er rakið frá hverju fyrir sig niður úr gegn. Hef ég helst tekið þau eftir aldri‚ þó er misbrestur á því‚ og víða er aldurinn ókunnur. Tekur afkvæmi eins systkinis stundum langan kafla í ritinu. Hef ég þá‚ þar sem ég hef talið systkinin upp‚ sett tölu við nafn hvers þess‚ er sýnir hvar það sé að finna‚ þar sem talið sé frá því‚ svo að fljótlegt sé að finna það. Eins hef ég‚ þar sem um systkinið er ritað sérstaklega, sett tölu við nafn þess‚ sem sýnir‚ hvar foreldra þess er að finna‚ því að mjög seinlegt er að rekja sig gegnum systkinamerki, ef til vill gegnum marga tugi af blaðsíðum. Þessa hefur lítið verið gætt í ættatölum hingað til.

Mig hefur langað til‚ að „Ættir Austfirðinga“ yrðu skipulegri og auðveldari að formi og fyrirkomulagi, og vitund meira af sögulegum atriðum í þeim‚ en tíðkast hefur í ættatölum vorum. En mikið brestur þó á, að vel sé‚ einkum að því er snertir söguleg atriði. Þeir menn‚ sem hér eftir vinna að ættatölum, ættu að gera meira að því‚ en gert hefur verið‚ svo að ættatölurnar verði ekki tómt nafnatal.

Ég hef gert mér far um‚ að rekja ættirnar rétt‚ og leiðrétta það‚ sem ég hef komizt að‚ að áður hefur verið skakkt talið. Getgátur hef ég að vísu komið með‚ en oftast látið þeirra þá getið‚ nema á stöku stað‚ þar sem ég hef talið þær sama sem vissu‚ og oft hefur komið fyrir að ég hef fengið fulla sönnun fyrir því‚ að þær getgátur hafi verið réttar.

Eigi að síður geng ég að því vísu‚ að ýmislegt kunni að vera skakkt í þeim‚ einkum þar sem ég hef farið eftir sögnum manna‚ sem ég hef ekki getað borið saman við áreiðanleg gögn.

Nafnatal hef ég ekki enn fullsamið, en tínt allmikið til í það‚ sem ég hef getað látið mér nægja. En það þarf að verða fullkomnara og mun ég semja það‚ ef ég lifi.

Reykjavík, 24. apríl 1929.

Einar Jónsson.

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2024.